133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[18:42]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Fortíðarhyggja Vinstri grænna kemur helst fram í því að þeir geta aldrei rætt um nútímann. Þeir verða alltaf að ræða um það sem hefur gerst einhvern tímann í fortíðinni. Þeir geta ekki rætt um það frumvarp sem verið er að greiða atkvæði um nú heldur ræða þeir um einhverja löngu týnda fortíð.

Þar sem hér er um að ræða, hæstv. forseti, er að það er verið að staðfesta samkomulag milli ríkis annars vegar og Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar hins vegar.

Frumkvæðið að þeim samningi kemur frá Reykjavíkurborg, frá fulltrúum R-listans sem m.a. Vinstri grænir stóðu að. (Gripið fram í.) Það merkilegasta í þessu öllu saman er að Vinstri grænir virðast vera búnir að gleyma þeirri ábyrgð sinni og leggjast gegn því og tala um einkavæðingu ríkisstjórnarinnar þegar frumkvæðið kemur frá R-listanum, m.a. fulltrúum Vinstri grænna í Reykjavíkurborg.

Það er verið að skilja á milli þess (Gripið fram í.) að Reykjavíkurborg rekur eitt stærsta orkufyrirtæki landsins (Forseti hringir.) sem er Orkuveita Reykjavíkur og svo Landsvirkjunar.

(Forseti (BÁ): Forseti vill fá ró í salinn.)