133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:01]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég var kominn þangað fyrir matarhlé að gera grein fyrir breytingartillögu sem ég flyt við þetta frumvarp um breytingar á lögum um búnaðarfræðslu. Ég minntist á að ég styð í sjálfu sér nefndarálitið og frumvarpið að undanskildum þeim þætti að starfsfólkinu sé sagt upp. Það hafa ekki komið fram nein lagaleg rök fyrir því að þess þurfi í þessu sambandi. Nafn skólans verður trúlega óbreytt, hann hefur gengið undir nafninu Hólaskóli – Háskólinn á Hólum undanfarin ár, það er ekki einu sinni verið að breyta því, og það hefur komið rækilega fram í greinargerð með þessu frumvarpi að hér sé fyrst og fremst verið að staðfesta það sem er nú þegar í umsvifum skólans en einnig að opna eigi fyrir frekari þróun og heimila skólanum að gefa út eigin háskólagráður á afmörkuðum sviðum.

Ég verð að segja að mér finnst alveg með ólíkindum léttúð, kæruleysi og ábyrgðarleysi meiri hluta landbúnaðarnefndar og ráðherra og starfsmanna hans sem hafa rekið þetta mál með svo miklu offorsi að maður fær á tilfinninguna að meginmarkmið frumvarpsins sé að segja fólkinu upp (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt hjá þér.) því að öll önnur atriði eru til staðar en þetta er fullkomið ábyrgðarleysi. Ég efast reyndar um að þessi grein standist lög og verði þau sett verða þetta einhver ólög vegna þess að ekki má segja starfsfólki upp nema um grundvallarbreytingar á stofnun sé að ræða, skipt um nafn, hún fái aðra kennitölu o.s.frv. Það verða engar slíkar breytingar hér.

Mér finnst þetta furðulegt. Eins og ég segi í greinargerð með breytingartillögu minni þá var Hólaskóli stofnaður 1882 og hann er búinn að starfa síðan. Það er margoft búið að breyta lögum um stofnunina og miklu meira en hér er verið að gera, en það hefur aldrei verið gripið til þess fyrr að leggja stofnunina niður og segja upp fólkinu eins og hér á að gera. Það hefur aldrei verið gert. Það er merkilegt ef núverandi landbúnaðarráðherra vill verða þekktur fyrir að hafa tekið þá áhættu, vegna þess að staðfesta eigi með lögum það nám og starf sem í gangi er á stofnuninni og gefa henni aukið svigrúm með því að fá rétt til að kalla sig háskóla lagalega, og þá skuli það vera gripið sem tilefni. Þegar leitað er skýringa þá eru ekki nein svör við því.

Ég minntist á það áðan að fyrir tveimur og hálfu ári síðan vorum við með frumvarp um Landbúnaðarháskóla Íslands sem fór í gegnum þingið og fól í sér að sameina þá þrjár stofnanir, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi. Þarna voru þrjár ólíkar stofnanir sameinaðar í eina og þá voru það höfð sem rök fyrir því að störfin væru lögð niður og fólkinu síðan boðin ráðning við hina nýju stofnun. Það var gagnrýnt en þar var þó verið að breyta starfsvettvangi fjölda fólks. Það var verið að ráða það til nýrra starfa og annarra starfslýsinga. (Gripið fram í: Og allir ánægðir með það.) Ekki aldeilis. Þetta tók mjög á stofnanirnar allar þrjár. Fyrst þegar það frumvarp kom fram var það bara um sameiningu á Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri en í miðri hringekjunni átti að fara að keyra þar inn bæði Hólaskóla og Garðyrkjuskólann. (Gripið fram í: Ekki Hólaskóla.) Jú, heldur betur. Það var sótt svo hart að því að koma Hólaskóla líka inn í það (Gripið fram í.) og leggja hann undir Landbúnaðarháskóla Íslands en Garðyrkjuskólinn fór. Ég held að hv. þm. Drífa Hjartardóttir, sem hér hrópar fram í, ætti að hugleiða hver varaði við því að Garðyrkjuskólinn færi algerlega óundirbúinn inn í þessa sameinuðu stofnun (Gripið fram í: Hverjir óskuðu eftir því?) og hverju var lofað sem aldrei var efnt í því sambandi. (DrH: Það var engu lofað.) Annað hefur verið haft hér á orði, að starfsmenn ráðherra hafi verið með einhver vilyrði ef stofnanirnar gengju inn. Hvað a.m.k. um skólastjórann sem þá var í Garðyrkjuskólanum, ég held að hann sé hættur og farinn, og hann telji að á einhvern hátt hafi kannski ekki verið staðið við það sem honum hafði verið sagt? Ég bara segi í því tilviki — þetta var sami ráðherrann og við erum með áfram, því miður — að ég held að aðstandendur Garðyrkjuskólans fagni ekkert þeirri stöðu sem þar er komin upp. Það má segja að ekki hafi þurft að fara svo. En hv. þm. Drífa Hjartardóttir ætti kannski að upplýsa okkur um hversu mikil ánægja er núna meðal aðstandenda Garðyrkjuskólans með að skólinn var lagður niður svo skyndilega með þeim hætti sem raun ber vitni. Ég varaði við því.

Það er alveg rétt, það tókst að bjarga Hólaskóla, að hann færi ekki líka þarna inn. (Gripið fram í: Þið vilduð það ekki?) Það er bara samt svo að það var ekki nema fyrir harðsnúna … (Gripið fram í.) Og það er ekki í fyrsta skipti, fyrir nokkrum árum var líka reynt að leggja Hólaskóla undir sameinaða stofnun landbúnaðarins og það komu líka fram tillögur um að leggja hann undir Akureyri. Skólinn er því búinn að vera í stöðugri vörn við að verja stöðu sína. Styrkur slíkrar stofnunar felst í því fólki sem þar er á hverjum tíma. Það er styrkur stofnunar eins og Hólaskóla. Það síðasta sem maður gerir, þótt verið sé að gera minni háttar breytingu á löggjöf í kringum hann, er að segja starfsfólkinu upp. Það fólk sem tekur ábyrgð á því og það sem gerir það sýnir vítavert kæruleysi, sýnir starfsfólki óvirðingu með því að gera það með þeim hætti, því að þótt fólkinu sé lofað að það verði endurráðið er búið að rjúfa ráðningarsambandið. Hver og einn starfsmaður á rétt á sínum biðlaunum. Hann á rétt á því að meta hvort nýr ráðningarsamningur, nýtt ráðningarform sé í samræmi við það sem hann ber væntingar til. Í einhverjum tilgangi er verið að keyra þetta svona ofboðslega stíft að fólkinu skuli sagt upp.

Frú forseti. Eins gott og það er að fagna því að Hólaskóli fái að útskrifa fólk með háskólagráðu á ábyrgð landbúnaðarráðuneytisins — en það hefur komið fram að skólinn og eins Landbúnaðarháskólinn, sem ég kalla svo, á Hvanneyri, Landbúnaðarháskóli Íslands, muni sækja um staðfestingu og viðurkenningu á háskólagráðunni frá menntamálaráðuneytinu — er það jafndapurt að um leið skuli vera valin sú leið að nota tækifærið og segja öllu starfsfólki upp og stefna því öryggi sem stofnunin á að búa við í hættu. Það sýnir bara vankunnáttu og fullkomið og vítavert kæruleysi.

Ég minni á og endurtek að þegar lögum var breytt og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri var stofnaður upp úr bændaskólanum með miklu meiri lagabreytingu sýndu allir sem komu að því máli þá ábyrgð að hrófla ekki við ráðningarsamningum fólks eða ráðningarsamningum á milli stofnunarinnar og fólksins og sama er nú gert t.d. með Kennaraháskólann, eins og ég vitnaði í áðan. Verið er að leggja fram frumvarp um að Kennaraháskólinn renni inn í Háskóla Íslands og verði lagður niður. Samt er kveðið mjög skýrt á um að starfsfólk Kennaraháskólans verði sjálfkrafa, og án þess að ráðningarsamningar séu rofnir, starfsmenn Háskóla Íslands. (Gripið fram í.) Enn þá minni þörf er því hér.

Frú forseti. Það er með ólíkindum hvernig níðst er í gegnum þessa litlu og góðu lagabreytingu bæði á öryggi stofnunarinnar og því nauðsynlega umhverfi sem hún þarf að búa við. Ég hef farið í gegnum það að það sé allt frá því að vera einn starfsmaður sem sé ráðinn í gegnum slíkan feril og ég veit að það síðasta sem maður gerir er að raska starfsöryggi fólksins. Stofnunin er fólkið. Þegar menn ætla að gera góða lagabreytingu byrja menn ekki á því að segja upp fólki og rjúfa ráðningarsamningana við það. Ég hef því lagt fram tillögu um að þessu verði breytt, að þessi ákvörðun um uppsagnir fólksins verði afturkölluð og að ráðningarsambandið verði órofið eins og venja er í svona tilvikum.