133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að hv. þingmaður hefur því miður ekki lesið breytingartillögu mína. Þar segir: „Skipað og ótímabundið ráðið starfsfólk Hólaskóla skal halda stöðum sínum. Þeir einir geta þó orðið prófessorar, dósentar og lektorar við Hólaskóla sem uppfylla kröfur 34. gr. laganna.“ Þessi orð hv. þingmanns eru því sprottin af misskilningi.

Hitt er að þótt þessi breyting gangi með þessum hætti yfir þá vona ég náttúrlega að fólkið verði ráðið. Ég held því ekki fram að gengið verði að því af neinum fautaskap, alls ekki. Ég hef aldrei látið að því liggja. Hins vegar vil ég benda á að ráðningarsambandið er rofið. Það er bæði upp á einstaklingana og hins vegar þá stofnunina komið hvernig framhaldið verður. Auðvitað vonum við að það gangi vel, að sjálfsögðu. En þessi ákvæði um að segja upp öllu fólkinu eru tilefnislaus þótt breytingar séu gerðar á lagaumgjörðinni.