133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur og fagnað, eins og ég gerði í ræðu minni, þeim áföngum sem hér er verið að taka fyrir í Hólaskóla, merkum og stórum áfanga.

Aðeins varðandi starfsfólkið, það er alveg hárrétt að starfsfólkið hefur varinn rétt þannig að kjör þess — það getur náttúrlega valið hvort það tekur hinu nýja starfi sem því er boðið eða tekur biðlaun eftir þeim réttindum og lögum sem kveðið er á um þar. Það er alveg hárrétt og það er það sem starfsmannafélög hafa sagt í umsögnum sínum um frumvarpið, að réttur starfsmanna sem slíkur er varinn lögum samkvæmt, bæði hvað varðar starfslokarétt, biðlaunarétt og annað því um líkt, þannig að þetta snýr ekki að beint að því. Ég er hins vegar meira að hugsa um stofnunina sem slíka, að vera ekki að setja hana í óvissu að ástæðulausu. En ég tek alveg undir orð hv. þingmanns um að ég vona að það reynist ekki svo. Mitt mat er að það sé ástæðulaust og réttur starfsmannanna er klár, það er alveg hárrétt.