133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:37]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist hafa stórlega dregið úr áhyggjum hv. þm. Jóns Bjarnasonar og ég er glöð yfir því. Ég held að skólinn þurfi heldur ekki að hafa áhyggjur af því að starfsfólkið flykkist í burtu eða kjósi að taka biðlaun því að eftir því sem ég best veit er almenn ánægja meðal starfsfólks Hólaskóla með að starfa við þá frábæru stofnun sem er svo — ja, það er bara upplifun að koma þarna í heimsókn og kynnast þeirri bjartsýni og þeim mikla uppbyggingarhug sem er í fólkinu. Og rektor skólans gaf okkur ekki tilefni til að halda að við þyrftum að hafa áhyggjur af því að fólkið mundi ekki þiggja störf við skólann. Ég held því að við ættum bara að vera áhyggjulaus hvað þetta varðar.