133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:42]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því hve langt þetta mál er komið enda er það rétt sem hér hefur komið fram að Hólaskóla var heitið á mikilli afmælishátíð í sumar að við í stjórnarflokkunum og á Alþingi mundum klára það, að Hólaskóli yrði háskóli samkvæmt lögum með skyldum og réttindum sem því fylgja, sem eru miklar. Hér er verið að efna fyrirheit og líka, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, verið að gefa Háskólanum á Hólum ný tækifæri og gríðarlega möguleika.

Skólinn hefur þróast glæsilega á síðustu árum og áratugum, má segja. Þar er, eins og hér hefur komið fram, dýnamískt umhverfi vísindamanna og kennara. Þar vilja menn setjast að og takast á við verkefnin. Þau hafa auðvitað verið að stækka og lögin sem hér verða sett munu enn auka á möguleika þessa góða skóla til að láta að sér kveða fyrir íslenskan landbúnað, íslenskt þjóðfélag og ekki síst fyrir Skagafjörð. Þarna er sannkölluð byggðastofnun og baráttutæki fólks til að efla tækifærin í dreifbýlinu.

Svo er náttúrlega glæsilegt að hugsa til hins mikla samstarfs sem skólinn hefur átt með kirkjunni á Hólum, Hóladómkirkju. Það markar tímamót. Þessar tvær stoðir, kristin kirkja og háskóli, eiga gríðarleg tækifæri sem munu bara vaxa við þessa breytingu.

Ég vil hér segja fyrir mig eftir að hafa hlustað á umræðuna að vissulega snertir það mig sem landbúnaðarráðherra, að hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi skólastjóri skólans með miklum glæsibrag, sem á þar góða sögu, skuli leggjast hér gegn einum þætti þessa máls. Það snertir mig. Í því er fólgið vantraust, einhver efi og það skapar óróa á Hólum þegar hann reynir að tortryggja það sem hér er fram undan. Það er dálítið alvarlegt miðað við að hv. þingmaður hefur setið í nefndinni, farið yfir allt sem sagt hefur verið um málið og að auki er hann reyndur skólamaður og skilur hvað um er að vera.

Ég verð að áætla að þetta séu þær starfsaðferðir sem einkenna stjórnarandstöðuflokkinn Vinstri græna frekar en sannfæring hv. þingmanns. Það er eins og þeir þurfi að finna sér leiðir til að vera á móti öllum hlutum. Áðan lögðust þeir t.d. gegn ríkisvæðingu Landsvirkjunar Það er táknrænt fyrir þann litla flokk, að vera á móti öllum hlutum.

Ég vil segja við þessa umræðu að það er klárt að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að störf hjá Hólaskóla verði lögð niður við gildistöku laganna, en öllu starfsfólki stofnunarinnar boðin störf hjá Hólaskóla eða Háskólanum á Hólum. Ákvæði þetta er hliðstætt þeim ákvæðum sem sett voru í lögin um stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands. Þetta eru hliðstæð ákvæði og sett voru um stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Ljóst er að um grundvallarbreytingu er að ræða á starfsemi Hólaskóla þegar hann færist upp á háskólastig. Þetta vita hv. þingmenn Vinstri grænna. Það er eðlilegt og undir öllum kringumstæðum æskilegt að gefa stofnuninni og stjórnendum hennar tækifæri til að skipuleggja starfsemina og starfsmannahald frá grunni til samræmis við störf Hólaskóla sem háskóla.

Reynslan af þessu fyrirkomulagi er góð, samanber Landbúnaðarháskóla Íslands sem blómstrar í sinni nýju mynd eins og fram kom hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur, formanni landbúnaðarnefndar. Allir viðurkenna að það hafi haft mikil áhrif á Landbúnaðarháskóla Íslands að fá þetta tækifæri. Um þær mundir var rætt um að Hólaskóli þyrfti á því sama að halda. Taka má fram að gerðar eru aðrar kröfur um menntun og starfsreynslu starfsmanna innan í háskóla en framhaldsskólanna. Því verður að vera hægt að ráða núverandi starfsfólk í nýtt skipulag frekar en að vera bundinn af því gamla. Þetta hlýtur skólastjórinn að skilja.

Því fer fjarri að öryggi stofnunarinnar og samfélagsins á Hólum komist í uppnám við þessar breytingar. Það hefur m.a. komið hér fram hjá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, sem situr í landbúnaðarnefnd og er einnig í stjórnarandstöðu en styður þetta mál, að haft var sambandi bæði við rektor skólans og fulltrúa starfsmanna sem hvor tveggja höfðu fullan skilning á málinu. Þeir gerðu engar athugasemdir við þessa leið því þeir treysta því sem sagt er, bæði í lagatextanum, í vinnu landbúnaðarráðuneytisins og einnig í landbúnaðarnefnd sem leggur mikla áherslu á hið sama.

Það er því fjarri lagi að öryggi stofnunarinnar sé sett í hættu. Við munum tryggja að staðið verði við öll þau fyrirheit sem gefin hafa verið starfsmönnum Hólaskóla. Þeir munu fá starf við Háskólann á Hólum. Þetta er talið mikilvægt og er sambærilegt, eins og ég hef rakið, við það þegar Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri var stofnaður. Þetta er hliðstætt.

Ég bið hv. þingmenn að treysta því að allt verði þetta unnið af miklum friði innan Hólaskóla og í samstarfi við það góða starfsfólk sem þar hefur starfað um langa hríð. Ég vil eyða þeim efasemdum sem hér hafa verið viðraðar af hálfu Vinstri grænna í umræðunni og bið menn að treysta því að öllu því sem komið hefur fram af hálfu meiri hluta landbúnaðarnefndar verði fylgt eftir af landbúnaðarráðuneytinu og landbúnaðarráðherra og væntanlegum rektor Hólaskóla og háskólaráðinu á Hólum.