133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:52]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að ég fór hlýjum orðum um hv. þm. Jón Bjarnason og feril hans en sagði jafnframt að ég tæki orð hans nærri mér og þær efasemdir sem hann setti fram. Ég vildi eyða þeim efa og vildi að menn gætu treyst því að fólk fengi áfram störf á Hólum.

En það hefur margkomið fram, hv. þingmaður, í þessari umræðu að eðlilegt og undir öllum kringumstæðum æskilegt sé að gefa stofnuninni, stjórnendum hennar, rektori og háskólaráði, tækifæri á að skipuleggja starfsemi og starfsmannahald frá grunni til samræmis við stöðu Hólaskóla sem nýs háskóla. Það er algjörlega ljóst. Svipað var gert gagnvart Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég vil eyða þessari óvissu.

Hvað varðar ummælin um Landsvirkjun þá hef ég oft velt Vinstri grænum fyrir mér. Þeir minna mig á kommúnistaflokk frá Kína sem ég las um. Hann var uppi fyrir 2.200 árum. Hann var á móti öllu í Kína, meira að segja söng og dansi. Í sögunni er þetta mjög merkilegur kommúnistaflokkur. Mér finnst hann hafi kannski skotið upp kollinum á Íslandi löngu, löngu seinna. Hann hefur mikla sérstöðu í þinginu hvað þetta varðar.

Hvað ummæli Valgerðar Sverrisdóttur varðar þá ætla ég ekki að eltast við þau. Ég minnist þess að ég mótmæli orðum hennar á sínum tíma. Það gerði Halldór Ásgrímsson þáverandi formaður einnig. Hann sagði að Landsvirkjun væri ekki að fara í neina einkavæðingu. Það hefur Jón Sigurðsson sagt einnig. Landsvirkjun er og verður ríkisfyrirtæki áfram. Það er alveg skýrt hvað þetta varðar.

Ég vona hvað Hólaskóla varðar að við tökum saman höndum og gleðjumst yfir (Forseti hringir.) þessari nýju stöðu og tækifærum skólans.