133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:56]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil að það komi skýrt fram, vegna orða Valgerðar Sverrisdóttur og Geirs H. Haardes á þeim tíma, að þau höfðu orð á að það gæti þurft að styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar með því að lífeyrissjóðirnir, kannski sá lífeyrissjóður sem hv. þingmaður er í forustu fyrir, (Gripið fram í.) kæmu inn í Landsvirkjun.

Það kann að vera að það sé vilji Sjálfstæðisflokksins að selja Landsvirkjun en ég held að orð Valgerðar hafi verið rangtúlkuð. Stefna Framsóknarflokksins í málinu er skýr. Það er ekki verið að einkavæða Landsvirkjun. Það er verið að ríkisvæða hana. Hvað útvarpið varðar, RÚV, þá leggjast hv. þingmenn — kemur nú hv. þm. Össur Skarphéðinsson — og þá hefst nú gleðin hér í kvöld. (ÖS: Af hverju viljið þið samþykkja RÚV?) Við viljum samþykkja RÚV af því við verðum með sterkara Ríkisútvarp á eftir. Meira íslenskt efni. Fyrirtæki sem getur staðið í samkeppninni enda fáum við upplýsingar um að hin frjálsu öfl sem eru í samkeppni við RÚV telja að RÚV sé of sterkt á markaðnum og þeir muni ekki ráða við það þótt þeir væru með stærstan hluta auglýsinganna.

Það er greinilegt að hægri öflin í þjóðfélaginu leggjast gegn þessari (Gripið fram í.) formbreytingu á Ríkisútvarpinu. Það á ekki að selja Ríkisútvarpið. Það er alveg skýrt af okkar hálfu. Það þarf tvo til að einkavæða það. Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) mun ekki gera það. Þetta er því alveg skýr afstaða.