133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[21:46]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að taka það fram fyrst að þær breytingar sem meiri hlutinn leggur hér til höfðu komið til umræðu í heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis áður en fjárlög voru afgreidd hér í gær eða fyrradag. (Gripið fram í: Eftir fundinn.) Á síðasta fundi heilbrigðis- og trygginganefndar hér í vikunni, þ.e. á reglulegum fundi á mánudag var m.a. rætt um áhrif af séreignarlífeyrissparnaði og önnur atriði sem meiri hlutinn leggur hér til. Þau mál voru unnin áfram af hálfu meiri hlutans í samstarfi við hlutaðeigandi ráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra. Í kjölfar þess tilkynntu hæstv. ráðherrar að þessar breytingar yrðu lagðar til af hálfu meiri hlutans við afgreiðslu málsins úr heilbrigðis- og trygginganefnd eins og gert hefur verið.

Varðandi það hvernig eigi að fjármagna þessar breytingar er það auðvitað nýlunda að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi áhyggjur af því hvernig eigi að fjármagna svona breytingar, en það er rétt að taka það fram að það er gert ráð fyrir því og hefur komið fram bæði hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra í svörum við spurningum frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að gert er ráð fyrir því að þessir fjármunir rúmist innan núverandi fjárheimilda Tryggingastofnunar ríkisins. Það er fyrst og fremst vegna þess að fjölgun lífeyrisþega hefur undanfarið ekki verið jafnmikil og áður hafði verið gert ráð fyrir.