133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:26]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað einkennilegur málflutningur af hálfu hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar þar sem því er ítrekað haldið fram að aldraðir hafi verið beittir þvingunum, (ÁRJ: Þeir segja það sjálfir.) hótunum eða mekanískri nauðung til að skrifa undir samkomulag við ríkisstjórnina, samkomulag sem nú er að skila þeim 30 milljörðum, sem skilar ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum 30 milljörðum til viðbótar við núverandi greiðslur á næstu fjórum árum. Að halda þessu fram er náttúrlega algjörlega óboðlegt.

Heldur hv. þingmaður að talsmenn eldri borgara hafi komið fram í fjölmiðum líka nauðugir viljugir og lýst því yfir að þeir væru ánægðir með hækkun á lífeyrisgreiðslum eins og talsmennirnir gerðu á þessum tíma? Það er auðvitað ekki hægt að tala svona, hæstv. forseti.

Það er alltaf hægt að gera betur og auðvitað vilja eldri borgarar fá meiri peninga, hærri greiðslur. Það er alltaf þannig, hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að frítekjumarkið sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni er núna 0 kr. Það er 0 kr. og hefur verið hækkað upp í 300 þús. Auðvitað er miklu einfaldara að hafa það 750 þús. kr. á ári. (ÁRJ: Það er ekki …) Ég held að allir væru til í það ef til væru nægir fjármunir.

Eigum við ekki að taka eitt skref í einu og vera þá ánægð með að fara úr 0 kr. í 300 þús.? Ég held að það væri ágætt skref, hæstv. forseti, þótt ekki væri annað sagt í bili.