133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:34]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið til 2. umr. frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar. Með því verða staðfestir með lögum þeir þættir samkomulags á milli ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara frá því í júlí í sumar sem kölluðu á lagabreytingar. Í umræðum á hinu háa Alþingi á síðustu dögum og í viðræðum við eldri borgara hefur verið látið að því liggja að ekki hafi verið um samkomulag að ræða heldur yfirlýsingar frá hendi ríkisstjórnarinnar. Ég vísa þeim hugleiðingum þeirra sem því halda fram á bug og sé enga ástæðu til að talsmenn eldri borgara eða stjórnarandstaðan, ef út í það væri farið, vilji draga úr ábyrgð eldri borgara á þessu mikilvæga samkomulagi. Það veldur, þegar upp er staðið, einni mestu byltingu síðari ára í kjörum aldraðra og öryrkja. Ég tel þvert á móti að ríkisstjórn, Alþingi, eldri borgarar og talsmenn þeirra, sem voru aðilar að samkomulaginu, geti verið stoltir af því og geti tvímælalaust stært sig af því.

Með samþykkt frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar efnir ríkisstjórnin sinn hluta samkomulagsins og gott betur, með þeim breytingum sem meiri hluti heilbrigðisnefndar hefur gert á frumvarpinu í meðhöndlun þingsins. Þetta samkomulag milli aðila náðist eftir miklar umræður og er niðurstaða byggð á helstu áherslum í málflutningi talsmanna eldri borgara á undaförnum missirum. Hins vegar er alveg ljóst að samkomulagið þýðir niðurstöðu sem er kannski ekki í samræmi við ýtrustu kröfur hvors aðila. En við það verða menn að sætta sig og una glaðir við það sem þeir ná fram. Með þessu samkomulagi hafa helstu baráttumál eldri borgara náð fram að ganga.

Hvaða þýðingu hefur frumvarpið fyrir eldri borgara, öryrkja og lífeyrisþega? Það kemur sérstaklega fram í þessu frumvarpi að þrátt fyrir að samkomulag hafi verið við eldri borgara þá hafa ákveðnir þættir samkomulagsins verið yfirfærður á örorkulífeyrisþega, þótt þeir hafi ekki beinlínis verið aðilar að samkomulaginu.

Verið er að gera breytingar á lögum um almannatryggingar sem stórbæta hag aldraðra og öryrkja til framtíðar. Þær fela m.a. í sér hækkun lífeyrisgreiðslna til elli- og örorkulífeyrisþega og fyrsti hluti þeirrar hækkunar kom fram 1. júlí í sumar. Í öðru lagi er lækkun skerðingar bóta vegna tekna maka, hvort heldur lífeyristekna eða atvinnutekna, og reyndar alfarið greint á milli tengingar bóta við lífeyristekjur maka. Skerðingar vegna atvinnutekna maka eru jafnframt minnkaðar. Í þriðja lagi minnkar skerðing bóta vegna annarra tekna bótaþega. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega ofan í hvaða umbætur felast í frumvarpinu. Það hefur komið fram áður, bæði við 1. umr. og jafnframt í áliti meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.

Með lækkun skerðingar bóta vegna tekna maka og lækkun skerðingar bóta vegna annarra tekna bótaþega er í meiri mæli en áður horft á sjálfstæðan rétt einstaklinga til bóta í stað þess að líta á framfærslutekjur hjóna og fjölskyldu í heild. Þarna er tekið stórt skref enda hefur orðið ákveðin stefnubreytingu og fyrsta skrefið í þá átt var tekið í kjölfar öryrkjadómsins svokallaða. Sú stefna er fest í sessi að horfa á sjálfstæðan rétt bótaþega.

Eitt stóra atriðið í þessu samkomulagi og í frumvarpinu sem við fjöllum um er meðal helstu baráttumála elli- og örorkulífeyrisþega á síðustu árum, þ.e. frítekjumark vegna atvinnutekna. Þetta er mjög stórt og gott skref og er til þess fallið að hvetja þá sem hafa getu til til að starfa áfram í atvinnulífinu, á vinnumarkaði þrátt fyrir örorku og aldur og þeir geti gert það án þess að það leiði til of mikillar skerðingar á lífeyri almannatrygginga. Þetta er sá þáttur í velferðarkerfinu og í almannatryggingakerfinu sem hefur farið einna mest fyrir brjóstið á öldruðum og öryrkjum.

Í þeim línuritum sem fylgja nefndaráliti meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar eru tekin nokkur lýsandi dæmi um áhrif frumvarpsins á kjör aldraðra og ellilífeyrisþega. Mig langar að nefna nokkur dæmi sem eru lýsandi fyrir það stóra framfaraskref sem verður stigið þegar frumvarpið verður gert að lögum. Ég bendi á að þessar umbætur koma strax til framkvæmda um áramótin, eftir um þrjár vikur.

Í fyrsta lagi vil ég taka dæmi um áhrif frítekjumarks eigin tekna á greiðslur almannatrygginga til örorkulífeyrisþega. Tekjur einhleyps örorkulífeyrisþega með 50 þús. kr. atvinnutekjur, tekjur hans úr almannatryggingakerfinu, hækka úr um 85 þús. kr. í ár í um 115 þús. kr. nú um áramótin. Heildartekjur hans fyrir skatt hækka um 30 þús. kr., úr 135 þús. kr. á mánuði í 165 þús. kr., sem er töluverð kjarabót.

Annað dæmi er um minni tekjutengingu milli maka. Það getur leitt til þess að tekjur örorkulífeyrisþega hækki verulega. Dæmi um það er örorkulífeyrisþegi með 50 þús. kr. í atvinnutekjur og maki með 150 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Samanlagðar atvinnutekjur og lífeyrir almannatrygginga voru fyrir 1. júlí síðastliðinn rúmar 100 þús. kr. en 1. janúar næstkomandi verða tekjur hans 135 þús. kr., þ.e. hækkun um 35 þús. kr.

Þriðja dæmið er jafnframt um örorkulífeyrisþega. Þar er örorkulífeyrisþegi með engar tekjur af atvinnu en maki hins vegar er með 150 þús. kr. tekjur úr lífeyrissjóði. Tekjur örorkulífeyrisþegans frá almannatryggingum fyrir 1. júlí sl. voru tæpar 60 þús. kr. á mánuði, m.a. vegna samspilsins á milli hans og tekna maka, en þær verða rúmar 95 þús. kr. um næstu áramót og 105 þús. um áramótin 2007–2008. Þetta eru töluverðar upphæðir til viðbótar og ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar aukast verulega.

Síðan er ágætt að taka dæmi um samspil frítekjumarks og minni áhrif frá tekjum maka á heildartekjur ellilífeyrisþega. Ellilífeyrisþegi er með 150 þús. kr. tekjur á mánuði og maki með 150 þús. kr. í atvinnutekjur. Fyrir 1. júlí voru tekjur lífeyrisþegans úr almannatryggingunum rúmar 60 þús. kr., sem gerir alls 60 þús. kr. í tryggingatekjur og 50 þús. eigin tekjur sem eru 110 þúsund. Um áramótin verða þessi 110 þús. kr. orðnar að 125 þús. kr. miðað við þær breytingar sem hér eru boðaðar.

Ég vildi taka eitt dæmi til viðbótar um áhrif frítekjumarks vegna eigin tekna á heildartekjur ellilífeyrisþega. Lífeyrir almannatrygginga hjá einhleypum ellilífeyrisþega með 100 þús. kr. atvinnutekjur hækka úr 55 þús. kr. í 95 þús. kr. eða um 40 þús. kr., m.a. vegna upptöku frítekjumarks vegna eigin atvinnutekna. Tekjur þessa ellilífeyrisþega, sem er einhleypur, hækka úr 155 þús. kr. í 195 þús. kr. á mánuði.

Hægt væri að taka mörg önnur dæmi en hér læt ég staðar numið. Þetta eru dæmi um hvernig frumvarpið sem vísast verður að lögum á morgun hefur áhrif á tekjur lífeyrisþega. Þessi örfáu dæmi sýna hve miklar breytingar frumvarpið hefur í för með sér til að hækka lífeyrisgreiðslur, minnka tengingu við tekjur maka og eigin tekjur. Þar vegur ekki síst frítekjumark eigin tekna á lífeyri almannatrygginga.

Eins og ég sagði áðan hefur verið gerð grein fyrir þeim breytingum sem fylgja frumvarpinu en mig langar í lokin að ræða um kostnaðinn og hvaða viðbótarfjármagn er sett í kerfið með þessu frumvarpi. Viðbótarkostnaðurinn er um 26,7 milljarðar kr. til ársins 2010, auk 2,3 milljarða kr. sem bætt er í með þeim breytingum sem meiri hluti heilbrigðisnefndar leggur til. Þetta þýðir alls um 29 milljarða kr. til ársins 2010.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kallaði viðbæturnar sem komu inn í frumvarpið í meðhöndlun meiri hluta heilbrigðisnefndar yfirboð, 481 millj. kr. á næsta ári og hálfan milljarð á næsta ári. Hvað kallar þá hv. þingmaður 7 milljarða kr. viðbótina sem hún ætlaði að bæta í, flokkur hennar og stjórnarandstaðan, á næsta ári ef 500 millj. kr. (Gripið fram í.) eru yfirboð? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Þegar upp er staðið hækka greiðslur lífeyristrygginga milli áranna 2006 og 2007 um 10,5 milljarða kr. eða úr 32,2 milljörðum, samkvæmt fjárlögum 2006, í 42,7 milljarða kr. á næsta ári. Þetta er stórt skref og mikill árangur í baráttu fyrir bættum kjörum lífeyrisþega.

Ég hlýt, virðulegi forseti, að benda á tvö önnur frumvörp sem verða að lögum á morgun sem munu að öllum líkindum bæta hag alls almennings verulega, þar á meðal þeirra hópa sem frumvarpið sem hér er til umfjöllunar tekur sérstaklega til. Þar er lækkun matvælaverðs og tengdar breytingar við lækkun virðisaukaskatts um sem nemur 10,5 milljörðum kr. á ársgrundvelli. Hitt frumvarpið felur í sér lækkun skatta, lækkun tekjuskatts og hækkun persónuafsláttar, sem þýðir 13 milljarða kr. tilfærslur úr ríkissjóði til heimilanna í landinu.

Því verður ekki á móti mælt að þessar tilfærslur eru þær mestu sem þjóðin hefur upplifað árum saman. Þær endurspegla þann sterka grunn sem samfélag okkar byggir á og hefur verið lagður á síðasta einn og hálfan áratug undir forustu Sjálfstæðisflokksins. Alls gera þetta um 30 milljarða kr. á næsta ári í tilfærslur úr ríkiskassanum til heimilanna, með skattalækkunum og hækkun lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja.