133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[23:04]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara örstutt andsvar, ég nenni eiginlega ekki að munnhöggvast hérna við hv. þm. Pétur Blöndal um kjör lífeyrisþega. Ég bendi honum bara á að lesa Morgunblaðið í morgun. Þar er t.d. grein frá Ólafi Ólafssyni, formanni Landssambands eldri borgara, og Einari Árnasyni, hagfræðingi Landssambands eldri borgara, þar sem þeir lýsa ójöfnuðinum sem hefur viðgengist hjá ríkisstjórninni og hvernig lífeyrisþegar hafa komið út úr þeirri stjórnarstefnu sem hefur verið hér í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Hann ætti að geta lesið þetta. Ég ætla ekkert að lesa hér upp úr greinum en það er fljótséð. Þar er einmitt vitnað í þessar úttektir Stefáns Ólafssonar og ný gögn frá Hagstofu Íslands sem hv. þingmaður getur líka fundið á heimasíðu Hagstofunnar eða á heimasíðu Stefáns Ólafssonar.

Annars ætla ég ekki að hafa þetta andsvar lengra en bendi hv. þingmanni á að lesa þetta og kynna sér hver staða lífeyrisþega er eftir tæplega 12 ára valdasetu ríkisstjórnarflokkanna og 16 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins hér á landi.