133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar.

232. mál
[23:22]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í ítarlegri ræðu hv. formanns sjávarútvegsnefndar áðan ræðum við hér frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar og það eru viðurlagaákvæði þessara laga sem eru undir.

Það sem verið er að gera með þessu frumvarpi er að draga úr þeirri refsigleði sem einkennt hefur lög um stjórn fiskveiða og lög sem tengjast úrvinnslu sjávarafla. Það verður að segjast eins og er þegar maður fer í gegnum þessi lög að í þeim eru og hafa verið talsvert harðari viðurlagaákvæði en við höfum séð í öðrum lögum. Við hófum þessa ferð á síðasta þingi þegar inn kom varaþingmaður, hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson, og lagði fram frumvarp sem náði í gegn. Enda þótt það væri þingmannafrumvarp frá stjórnarandstöðuþingmanni náði það í gegnum þingið og til sjávarútvegsnefndar, var afgreitt þar í góðri sátt og varð að lögum nr. 22/2005, en þar var dregið verulega úr sektarákvæðum varðandi minni háttar brot. Áður voru lögin þannig að það var sama hvort brot var framið af gáleysi, var lítils háttar og allir sáu að ekki var fólgin í því nein auðgun eða tilgangur til auðgunarbrots, það þurfti samt sem áður að sekta upp á 400 þús. kr. Mönnum þótti það ekki við hæfi og eftir að hafa farið í gegnum það voru sektarlágmörkin felld niður á síðasta þingi.

Hér er verið að ganga aðeins lengra, verið er að minnka refsigleðina þegar kemur að því að svipta skip veiðileyfi vegna þess að þau hafi gerst brotleg við lög. Eins er verið að ganga lengra í því að minnka sviptingar hjá þeim sem gerst hafa brotlegir við lög er varða vigtun sjávarafla. Það sem mætti helst segja og draga saman í stuttu máli er að við erum að taka upp í fyrsta skipti í þessum lögum heimild til Fiskistofu til að veita mönnum skriflega áminningu ef um minni háttar brot er að ræða og ég tala nú ekki um ef um gáleysi eða engan ásetning er að ræða. Fiskistofa getur þá áminnt menn skriflega við fyrsta brot en er ekki föst í því að þurfa að svipta menn réttinum annaðhvort að halda til veiða eða að halda áfram að vigta sjávarafla í margar vikur eins og lögin eru í dag.

Það sem við erum líka að gera með þessu er að minnka þann tíma sem sviptingar standa við fyrsta brot. Eins er gert með ítrekunarbrot þó að það sé ekki eins hressilegt og við fyrsta brotið. Það er afar slæmt fyrir menn að verða fyrir sviptingum í því að mega stunda atvinnu sína og það er svo sem enginn að leika sér að því en það er óþarfi að okkar mati að þær sviptingar sem um er að ræða standi í margar vikur heldur, verði menn fyrir því að brjóta af sér og ekki dugir skrifleg áminning, sé hægt að svipta menn í stuttan tíma og menn átti sig þá og gangi til betri vegar.

Annað sem verið er að gera hér, sem er nýmæli, er það að dregið er úr heimildum til að gera veiðarfæri upptæk við brot á fiskveiðilögum. Nefndin leggur til að eingöngu við stórfelld og ítrekuð ásetningsbrot við greinum 3–5 í þessum lögum verði heimild til að svipta skip veiðarfærum og ólögmætum afla.

Eftir að hafa farið í gegnum þetta og skoðað umsagnir sem komu til okkar sáum við að tvö skip sem fremja sama brot hvort um sig með mjög mismunandi verðmæt veiðarfæri — dómarar höfðu í raun og veru enga heimild til að vega það og meta heldur átti að gera veiðarfæri upptæk í báðum skipum — annað skipið gat verið með margfalt verðmætari veiðarfæri en hitt og fengið þar af leiðandi margfalt meiri og hærri sekt við sama broti en hitt skipið.

Það er talsverð breyting í breytingartillögum sjávarútvegsnefndar frá því frumvarpi sem lagt var fyrir okkur og allar þær breytingar ganga í þá átt að milda enn frekar viðurlagaákvæði frá því sem frumvarpið gerði ráð fyrir, þó að frumvarpið sjálft gerði ráð fyrir talsvert mildandi viðurlögum við brotum. Það er álit sjávarútvegsnefndar, eins og sést á því að nefndarálitið kemur frá nefndinni allri og breytingartillögur einnig, að það sé óþarfi að vera með sérlega harðar refsingar í þessari atvinnugrein umfram það sem þekkist í öðrum greinum.

Eitt sem rætt var talsvert í nefndinni og ekki náðist samkomulag um var það sem er í núgildandi lögum að ef menn verða fyrir sviptingu á veiðileyfi eða sviptingu á leyfi til að vigta sjávarafla geta þeir kært þann úrskurð Fiskistofu til sjávarútvegsráðuneytis. Nú er sjávarútvegsráðuneytið ekkert annað en næsta skref fyrir ofan Fiskistofu í sama stjórnkerfi svo við ræddum það talsvert hvort menn ættu að geta kært úrskurð Fiskistofu til óháðrar úrskurðarnefndar. Ekki náðist samkomulag um það. Annað sem við ræddum var hvort kæra ætti að fresta sviptingu vegna þess að ef til stendur að svipta fyrirtæki leyfi til að stunda atvinnu sína í eina viku og fyrirtækinu þykir á sér brotið og kærir það til sjávarútvegsráðuneytis er ekki víst að kominn verði úrskurður frá sjávarútvegsráðuneytinu þegar vikan er liðin og fyrirtækið búið að fá réttindi sín aftur en úrskurðurinn gæti svo fallið nokkrum vikum síðar um að þetta hafi verið svipting sem ekki hefði átt að framkvæma. Þá hefur fyrirtækið orðið fyrir því að missa rétt sinn í ákveðinn tíma, verið órétti beitt en á enga möguleika í sjálfu sér til að leiðrétta það órétti eftir á. Við veltum því mikið fyrir okkur hvort kæra ætti ekki að fresta úrskurði um sviptingu en um það náðist ekki samkomulag í nefndinni.

Vegna þess hversu vel var unnið í nefndinni undir öruggri stjórn hv. formanns sjávarútvegsnefndar, Guðjóns Hjörleifssonar, gátum við sem í nefndinni sátum náð að samræma sjónarmið okkar og koma fram talsverðum umbótum á þessu kerfi frá því sem nú er og töldum ekki ástæðu til að gera ágreining um það þó að við næðum ekki í gegn þeim sjónarmiðum varðandi sviptinguna og úrskurðinn sem ég lýsti áðan.

Ég ætla ekki að eyða lengri tíma í að ræða þetta. Þessi breyting er til verulegra bóta og í þeim anda sem við höfum viljað starfa.