133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

lífeyrissjóðir.

233. mál
[23:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef reyndar örlítið annan skilning á nýjum deildum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs sveitarfélaganna. Ég lít svo á að þau hafi ekki bakábyrgð í skilningi eldri deilda þessara sjóða.

Hitt er rétt hjá hv. þingmanni að þar eru réttindin föst en iðgjöldin breytileg. (Gripið fram í.) Og í þeim skilningi má túlka þetta sem bakábyrgð en hins vegar er það ekki svo samkvæmt mínum skilningi. En það er mikilvægt að fá þennan skilning formanns efnahags- og viðskiptanefndar um markmið þessarar lagasetningar og mér finnst mikilvægt að fá það fram við umræðu í þinginu.

En síðan er hitt annað mál um hina, hvað eigum við að segja, siðferðilegu hlið og horfi ég þar til bankanna sérstaklega, sem ég tel að eigi ekki að afsala sér ábyrgð sinni á lífeyrisskuldbindingum starfsmanna sinna. En það er önnur saga.

Ég kom hingað fyrst og fremst til að fá þetta fram hjá formanni efnahags- og viðskiptanefndar ef á því þyrfti að halda síðar meir að vísa í það sem lögskýringargagn.