133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

lífeyrissjóðir.

233. mál
[23:37]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Segja má að efni frumvarpsins sé í raun tvíþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs verði hækkað úr 10% í 12% af iðgjaldsstofni og gert ráð fyrir að iðgjald launagreiðanda hækki úr í 6% í 8% en iðgjald launþega haldist hið sama, þ.e. 4%. Þessu er ég sammála.

Ég fagna því að í meðferð nefndarinnar var fallist á þá ábendingu mína að skoða ákvæði gagnvart Fæðingarorlofssjóði sem hefur staðið eftir og einungis hefur verið greitt 6% iðgjald í hann en ætti auðvitað að vera 8% þar líka. Efnahags- og viðskiptanefnd flytur sameiginlega breytingu um að leiðrétta þetta og ég fagna því sérstaklega. Það er einnig gert gagnvart Ábyrgðarsjóði launa.

Hitt atriðið sem ég gagnrýni er 2. og 3. gr. frumvarpsins en þar er ákvæði sem ég er ósátt við og tel að geti hugsanlega leitt til skerðingar á sjóðfélögum þessara sjóða, sem eru aðallega bankastarfsmenn en bakábyrgðin á þeim sjóði hefur verið afnumin. Hér er verið að leita eftir heimild til að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins og þar á meðal að skerða réttindi sjóðfélaga. Við það geri ég athugasemdir.

Ég beindi ýmsum spurningum til formanns Lífeyrissjóðs bankamanna sem lúta að því hvort ástæða sé til að ætla að þessari samþykkt verði beitt á þann veg að lífeyrisréttindi sjóðfélaga verið skert. Þar kemur vissulega fram að á því geti verið hætta. Aðdragandi þessa máls er að ríkisbönkunum tveimur, Landsbanka og Búnaðarbanka, var breytt úr ríkisbönkum í hlutafélög í eigu ríkisins árið 1997. Þá var það krafa ríkisstjórnarinnar að afnema bakábyrgð ríkisins af lífeyrisréttindum starfsmanna Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Rökin voru þau að útilokað væri að setja hlutafélag á markað með óútfylltan víxil.

Tryggingafræðingur var fenginn til þess að meta hver iðgjaldaþörfin yrði til að starfsmenn héldu óskertum réttindum. Þar var miðað við að iðgjald væri ákveðið 4% frá launamanni og 14,4% frá bankanum. En þrátt fyrir þessi háu iðgjöld hefur engu að síður hallað verulega á sjóðinn og launahækkanir umfram kjarasamninga eru alfarið í höndum eigenda og stjórnenda bankanna. Af þeim sökum fór stjórn lífeyrissjóðsins fram á það við aðildarfyrirtækin að þau bættu hallann á sjóðnum. Það var gert að hluta til.

Ég held að ástæða sé til að geta þess að fram kemur á þessu minnisblaði að samkvæmt spálíkani sem notað er við að meta stöðu sjóðsins eru 15% líkur á að skerða verði réttindi í sjóðnum innan tíu ára. Ef skerðing verður þá nær hún jafnt yfir alla, sama prósenta hjá öllum. Virkir sjóðfélagar í þessum sjóðum eru 1.050 og óvirkir um 4.000–5.000.

Ástæða er til að halda þessu til haga hér. Ég hefði haldið að ef til þess komi á næstu árum að verulegur halli verði á sjóðnum þá er skoðun mín sú að það séu aðildarfyrirtækin sem eigi að bæta upp þann halla því það er alveg ljóst að aðildarfyrirtækin og sjóðfélagar voru sammála um að afnám bakábyrgðar ætti ekki að leiða til lakari lífeyrisréttinda í framtíðinni og því eðlilegt að aðildarfyrirtækin greiði beint inn til sjóðsins ef halli verður á eignum eða núvirði framtíðariðgjalda á móti núvirði væntanlegs lífeyris.

Þessir sjóðir eru þeir einu hjá hinu opinbera þar sem bakábyrgðin hefur verið afnumin og því geta sjóðfélagar búist við því að í framtíðinni gæti komið til skerðingar á réttindum þeirra. Ég er ósammála því og tel að aðildarfyrirtækin eigi að standa undir þeim halla, því eins og ég segi og ítreka, að aðildarfyrirtækin og sjóðfélagar voru sammála um að afnám bakábyrgðar ætti ekki að leiða til lakari lífeyrisréttinda í framtíðinni.