133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

ársreikningar.

302. mál
[23:45]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd, en það er að finna á þingskjali 546.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Guðbjarnason frá ársreikningaskrá og Þórð Reynisson frá fjármálaráðuneyti. Nefndinni hafa auk þess borist umsagnir um málið.

Markmið frumvarpsins er að auka skil ársreikninga til ársreikningaskrár og gera málsmeðferð skilvirkari en þrátt fyrir skýra lagaskyldu þess efnis er ávallt nokkur fjöldi félaga sem hvorki semur ársreikning né skilar honum. Breytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpinu eru tvíþættar.

Lagt er til að sú háttsemi að framkvæmdastjóri eða stjórnarmenn stærri félaga vanrækja að semja eða skila inn ársreikningi eða samstæðureikningi teljist meiri háttar brot.

Síðari breytingin lýtur að ársreikningaskrá, sem hefur það hlutverk að taka á móti, geyma og birta ársreikninga skilaskyldra félaga, og er um að þar verði veitt heimild til að leggja sektir á þau félög sem teljast til minni félaga og vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi.

Að öðru leyti vísa ég til nefndarálitsins á þingskjali 546.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, Dagný Jónsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Birgir Ármannsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Möller og Sæunn Stefánsdóttir.