133. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[00:08]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

Með lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. voru veitt fyrirheit um aukið fjármagn til sérstakra samfélagsverkefna sem brunnu mjög á fólki en höfðu verið fjársvelt. Eitt þessara verkefna voru brýnar vegaframkvæmdir, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Íbúar, hvar sem er á landinu, bera miklar væntingar til þess að staðið verði við tímasett loforð og yfirlýsingar um einstakar vegaframkvæmdir sem Alþingi hefur samþykkt á samgönguáætlun. Fjármagn til framkvæmda samkvæmt gildandi samgönguáætlun hefur þó verið skorið niður á hverju ári síðastliðin þrjú ár og nemur sá niðurskurður nú samtals hátt á sjöunda milljarð króna

Síðastliðið sumar ákvað ríkisstjórnin svo að fresta útboðum og nýframkvæmdum í vegamálum til að slá á þenslu í þjóðfélaginu. Samtals nam sú frestun á annan milljarð króna og bitnaði harðast á fyrirhuguðum vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Sú þensla sem þar var verið að bregðast við er þó af allt öðrum orsökum en vegaframkvæmdum. Sú þensla er síst til staðar á Vestfjörðum og Norðausturlandi þar sem framkvæmdum var fyrst og fremst frestað.

Með þessu frumvarpi um breytingu á lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. er enn verið að fresta fjárframlögum til vegaframkvæmda sem lofað hafði verið á árinu 2007. Er hér um að ræða m.a. 200 millj. kr. niðurskurð á fjármagni til vegagerðar um Arnkötludal og hins vegar um 300 millj. kr. niðurskurð á vegagerð um Norðausturveg, auk verkefna á höfuðborgarsvæðinu.

Rök forsætisráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu voru þau að þessi frestun á vegaframkvæmdum væri til að bregðast við mikilli þenslu í þjóðfélaginu árið 2007. Samtímis gefa svo bæði fjármálaráðherra og samgönguráðherra yfirlýsingar og hafa áform um nýjar og brýnar vegaframkvæmdir á næsta ári sem ekki eru á núgildandi samgönguáætlun. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að ný og endurskoðuð samgönguáætlun skuli ekki hafa verið lögð fram og rædd á Alþingi áður en fjárlög fyrir árið 2007 voru afgreidd eða samþykkt ný lög sem kveða á um frestun á framkvæmdum sem lofað var á næsta ári og Alþingi hafði áður samþykkt.

Í frumvarpinu er einnig gerð tillaga um að flytja 500 millj. kr. fjárframlag til Fjarskiptasjóðs frá árinu 2007 til 2006 og er sótt til þess heimild á fjáraukalögum fyrir árið 2006. Ítrekað hefur verið spurt um hvaða verkefni Fjarskiptasjóðs séu gjaldfallin á árinu 2006 en ekki hafa fengist nein svör við því.

Þá fékkst frumvarpið ekki sent til umsagnar, hvorki til sveitarfélaga á þeim svæðum sem frestun á fé til vegaframkvæmda bitnar á né heldur til Vegagerðarinnar. Samgöngunefnd fékk málið ekki einu sinni til umsagnar. Minni hlutinn gagnrýnir alla meðferð þessa máls af hálfu ríkisstjórnar og meiri hluta fjárlaganefndar.

Ljóst er því að málatilbúnaður allur um sérstaka ráðstöfun á hluta á söluandvirði Landssíma Íslands mörg ár fram í tímann til skilgreindra verkefna sem kveðið var á um í fyrrgreindum lögum á sínum tíma, var algjör sýndarmennska af hálfu ríkisstjórnarinnar eins og stjórnarandstaðan benti á við afgreiðslu þess lagafrumvarps á sínum tíma.

Undir þetta nefndarálit rita auk mín, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hjörvar og Guðjón Arnar Kristjánsson.

Til að árétta sjónarmið okkar flytjum við breytingartillögu við frumvarpið þar sem við förum fram á og leggjum til að 1. gr. frumvarpsins sem fjallar um niðurskurð til lofaðra vegaframkvæmda verði felld niður með svofelldri greinargerð:

Hér er lagt til að fallið verði frá frestun á framlagi til vegamála í heild sinni, alls að fjárhæð 2,1 milljarðar kr. Heimilt verði að lána fé milli verkefna innan vegáætlunar 2007 að því marki sem ekki er hægt að nýta það fjármagn til þeirra verkefna sem það er eyrnamerkt til. Hafðar séu í huga framkvæmdir sem lúta að auknu öryggi á vegum og vegabótum þar sem ástand vega er hvað verst.

Herra forseti. Í ljósi umræðna síðustu daga og þeirrar stöðu sem upp er í vegaframkvæmdum í landinu þá er það alveg furðulegt að ríkisstjórnin meiri hluti hennar skuli beita sér fyrir því hér á Alþingi að skera niður fjármagn til vegaframkvæmda sem þegar er í hendi. Hversu svo vitlaust sem það var með sölu Landssímans, sem ég held að allir sjái nú betur og betur hversu vitlaust var, og þjóðhagslega skaðlegt, þá var hluti af þeirri beitu sem beitt var fyrir almenning í landinu, að því fjármagni skyldi varið til brýnna framkvæmda eins og vegaframkvæmda. Þetta fé er til.

Samtímis er nú einnig rætt um mikilvægi þess að gera stórátak í vegamálum, í dag var hér hópur fólks af Suðurlandi sem krafðist úrbóta á veginum milli Reykjavíkur og Selfoss. Ég hef fjölda bréfa og áskorana frá íbúum vítt og breitt um landið um aukið fjármagn til vegagerðar. En hvernig bregst þá ríkisstjórnin við? Jú, með því að skera niður það fjármagn sem er þó í hendi til vegagerðarinnar.

Þetta er svo dapur leikur hjá ráðherrunum, ríkisstjórninni og hjá stjórnarmeirihlutanum gagnvart almenningi í vegaframkvæmdum að það er sorglegt.

Því leggjum við til að fallið verði frá þeirri fáránlegu ákvörðun að skera niður það fjármagn sem lofað var og ákveðið að varið skyldi til skilgreindra verkefna í vegamálum samkvæmt lögum um ráðstöfun á söluandvirði Símans.

Verði ekki hægt að nýta það fjármagn til þeirra skilgreindu verkefna að fullu sem um er rætt, þá verði heimilt að nota það fjármagn til nauðsynlegra vegaframkvæmda á þeim landsvæðum þar sem þær voru fyrirhugaðar.

Herra forseti. Ég tel að ég hafi nú mælt rækilega fyrir þessu máli. Ég get rakið það að árið í ár, 2006, er eitt það daprasta ár í vegaframkvæmdum um langt árabil. Ég er hérna með mjög veglegt súlurit sem sýnir árið 2006 og það má fara nærri 10 ár aftur í tímann til að finna jafn dapurt ár í vegaframkvæmdum. (Gripið fram í: En 1990?) Ég hef ekki 1990, herra forseti. (Gripið fram í: Hver var samgönguráðherra þá?) En ég er með árið 2006, ég með árið 1998. Hver var samgönguráðherra 1998?

Hver var samgönguráðherra árið 2002 þegar framkvæmdir voru líka í lágmarki, ári fyrir kosningar? (Gripið fram í.) Og aftur nú eru framkvæmdir árið 2006, ári fyrir kosningar, með því lægsta sem verið hefur um langt árabil en hins vegar eru menn ósparir á að lofa framkvæmdum á árinu 2008, 2009 og 2010.

Herra forseti. Ég hef hér mælt fyrir nefndaráliti og breytingartillögum sem ég legg áherslu á að Alþingi fjalli um og samþykki, þ.e. að frestað verði fyrirhuguðum niðurskurði á fjármagni til vegamála sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn leggur til.