133. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[00:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt að halda því til haga að hér er um frumvarp að ræða sem var hluti af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar og náði tilgangi sínum sem slíkt. En ég vildi jafnframt taka fram í tilefni af orðum hv. þm. Steingríms Sigfússonar varðandi Norðausturveg að við þingmenn Norðausturkjördæmis höfum verið fullvissaðir um að með því átaki sem á að gera við byggingu Norðausturvegar þá verði veginum lokið á árinu 2008, eins og til stóð. Þetta verður að því tilskildu að það náist að undirbúa framkvæmdirnar og að niðurstaða náist í allan undirbúning, sem hefur auðvitað tekið óskaplega langan tíma og það veit hv. þingmaður.

Hann nefnir það — og kallar starfsmenn Vegagerðarinnar „húskarla samgönguráðherra“ — að þrátt fyrir mjög harða vinnu þeirra við undirbúning að þessum vegi þá hefur ekki tekist að hefja framkvæmdir við hann. Við höfum þó verið fullvissuð um að sú framkvæmd geti hafist strax á nýju ári og þá er ekkert sem hindrar að framkvæmdum geti lokið á árinu 2008 við þá áfanga sem var til stofnað að ráðast í.