133. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2006.

Póst- og fjarskiptastofnun.

397. mál
[00:57]
Hlusta

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af orðum hv. þm. Jóns Bjarnasonar vildi ég minna á að megintilgangur frumvarpsins er að samræma dagsektarákvæði fjarskiptalaga og laga um Póst- og fjarskiptastofnun, þ.e. breyta gjöldum í skatta. Það er m.a. gert vegna athugasemda úrskurðarnefndar Póst- og fjarskiptamála. Stofnuninni hefur ekki tekist að sýna fram á fullnægjandi kostnað að baki gjöldum, t.d. vegna tíðnigjalda. Styrkja á daggjaldagrunn vegna gjaldskrár og hækka rekstrargjaldið vegna breytinga á gjaldskrá. Heildarbreytingarnar leiða til um 2 millj. kr. lækkunar á gjöldum stofnunarinnar. Það er nauðsynlegt að þetta komi fram.

Í annan stað talaði hv. þm. Jón Bjarnason um 40% hækkun vegna notkunar farsíma. Ég er ekki alveg klár á hver prósentan er en hins vegar er ljóst að gjaldskrá vegna farsíma hefur snúist við á nokkrum árum í samanburði við gjaldskrána annars staðar á Norðurlöndum. Nú stöndum við frammi fyrir því að hið eina sem við getum státað okkur af í gjaldskránni í samanburði við önnur norræn lönd er að við erum lægstir í fastlínutengingum. En við erum komin upp fyrir hin löndin varðandi gjöld af farsímum.

Frumvarpið sem við fjöllum um á að styrkja starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar í að hafa betra eftirlit með þeim ágætu aðilum sem þjónustuna veita, sem eru nánast tveir á markaðnum en hafa því miður einhverja þröskulda í fyrirtækjum sínum þannig að hinn frjálsi markaður blómstrar ekki nóg. Það komast of fáir að á markaðnum til þess að skapa eiginlega samkeppni (Forseti hringir.) en við ættum að ná því með þessu móti.