133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Sundabraut -- ástandið í Palestínu.

[09:33]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er ekki við öðru að búast en að hv. þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna fylgist grannt með því sem er að gerast í samgöngumálum í næsta nágrenni borgarinnar. Fyrirhuguð Sundabraut er einn af þessum mikilvægu leggjum út frá höfuðborgarsvæðinu sem skiptir mjög miklu máli að verði afkastamikil braut, vel undirbúin og vel framkvæmd.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni liggur nú fyrir skýrsla sem var unnin í framhaldi af því að umhverfisráðherra úrskurðaði um leiðir og úrskurðaði um svokallaða innri leið. Þeim úrskurði fylgdi að umfangsmikið samráð skyldi haft við íbúa og sú vinna hefur verið í gangi á vettvangi samráðsnefndar Vegagerðar og borgarinnar. Niðurstaða er nú sú að sérfræðingar hafa litið á þann kost að jarðgöng yrðu fyrir valinu og kæmu vel til greina.

Vegagerðin hefur í samráði við borgina ákveðið að setja jarðgangakostinn í umhverfismat, ég tel að það sé hárrétt ákvörðun, og að jarðgangakosturinn verði borinn saman við svokallaða innri leið breytta þannig að hún liggi út fyrir Hamarinn og að Hallsvegurinn yrði færður til norðurs til tengingar. Þannig fást samanburðarniðurstöður sem geta þá sýnt okkur svo að ekki fari á milli mála hver sé raunverulega besti kosturinn hvað þetta varðar, tenging milli borgarinnar og norður á bóginn til framtíðar.