133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Sundabraut -- ástandið í Palestínu.

[09:40]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp og fagna þeim niðurstöðum sem fram koma í skýrslunni um jarðgöng til þess að þvera Kleppsvíkina og leggja Sundabraut allt frá Laugarnesi og yfir á Kjalarnesið. Það eru mjög mikilvægar niðurstöður sem fást út úr þessari skýrslu og ég minni á að hún er afurð víðtæks samráðsferlis sem ákveðið var að fara í í vor að ósk m.a. íbúasamtakanna í Grafarvogi og Laugarnesi. Það voru höfð uppi um það stór orð hér á þingi og eins í fjölmiðlum að þetta samráðsferli væri töf á framkvæmdum, það væri verið að tefja framkvæmdir.

Niðurstaðan er auðvitað sú, eins og menn vita sem á annað borða vilja ástunda eitthvað sem heita samráðsstjórnmál, að samráð skilar skynsamlegri og góðri niðurstöðu. Það er að koma í ljós í þessu máli. Ég vona að jarðgangaleiðin sé að verða viðtekin skoðun núna, það verði hægt að fallast á hana og mér heyrist það af hálfu hæstv. samgönguráðherra.

Ég minni á það að borgaryfirvöld stóðu árum saman í hálfgerðum slag, getum við sagt, við yfirvöld samgöngumála vegna þess að yfirvöld samgöngumála kröfðust þess ævinlega að farin yrði ódýrasta leiðin með Sundabraut. Ef ekki væri farin ódýrasta leiðin ætti borgin að greiða mismuninn, ef hún veldi aðra leið. Núna vona ég að við stöndum ekki andspænis þessu og að samgönguyfirvöld séu tilbúin til að fjármagna Sundabrautina alla leið í jarðgöngum þó að hún sé 4 milljörðum dýrari en innri leiðin, sem svo er kölluð.

Ég vil aðeins vegna umræðunnar um Palestínu taka undir með hv. þm. Þuríði Backman í því máli. Ég vil leyfa mér að bæta aðeins við og skora á ríkisstjórnina að taka þetta mál nú fyrir því að palestínska þjóðin sveltur núna heilu hungri og verja fjárframlagi (Forseti hringir.) til palestínsku þjóðarinnar í aðdraganda jólahátíðar.