133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Sundabraut – ástandið í Palestínu.

[09:46]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sundabrautin er mjög mikilvægt og stórt verkefni í samgöngumálum, þetta er ekki einkamál Reykvíkinga, heldur varðar þetta mál landsmenn alla. Ég hef áður talað fyrir því að þessi leið yrði valin, þ.e. svokallaða ytri leið, og það yrði gert með jarðgöngum. Ég tel að það sé langskynsamlegasta leiðin og fagna því núna mjög að hún eigi að fara í umhverfismat. Að sjálfsögðu vonum við þá að framkvæmdir geti hafist sem allra fyrst. Við höfum mjög góða reynslu af göngum á Íslandi, m.a. neðansjávargöngum, og þar nefni ég Hvalfjarðargöngin.

Hvað varðar aðrar hugmyndir þá líst mér ekki á þær. Mér líst ekki á innri leiðina og mér líst heldur ekki á að lögð verði svokölluð botngöng, að fara með þetta í einhvern stokk er engin lausn. Jarðgöng þarna undir eru eina lausnin sem eitthvert vit er í og þess vegna hljótum við að fagna þessu mjög.

Ég vara hins vegar við því að stjórnmálaflokkar fari að gera þetta mikla verkefni að einhvers konar bitbeini sín á milli, fari að metast um það hver eigi heiðurinn af þessu eða hver eigi að eiga heiðurinn af þessu. Við þurfum einfaldlega að vera samtaka um að einhenda okkur í þetta stóra verkefni. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni fyrir okkur öll, íslensku þjóðina.

Svo er annað, virðulegi forseti, sem eru málefni Palestínu. Það er alveg rétt sem bent hefur verið á, þar ríkir hörmulegt neyðarástand nú um stundir. Sérstaklega er ástandið slæmt á Gaza-ströndinni þar sem hundruð óbreyttra borgara hafa fallið á undanförnum mánuðum, þar á meðal mörg börn. Rafmagnið hefur verið tekið af þessu svæði stóran hluta sólarhringsins, fólk býr við mikla neyð og mikinn skort því að þarna hefur miklum fjölda fólks hreinlega verið haldið í herkví um mjög langt skeið. Við Íslendingar hljótum að nota hvert tækifæri sem við fáum, bæði innan lands og að sjálfsögðu einnig á alþjóðavettvangi, til að mótmæla þessu og að sjálfsögðu ættum við að sameinast um að reyna að rétta þessu vesalings fólki einhverja hjálparhönd. Neyðin (Forseti hringir.) er mjög mikil.