133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Sundabraut – ástandið í Palestínu.

[09:48]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að hér sé talað um að fara ytri leiðina og er ágætt að rifja upp að símaféð svokallaða, 8 milljarðarnir, var skilyrt við innri leiðina. Hvað varðar botngöng Framsóknarflokksins frá síðustu kosningum, brutu þau í bága við Evrópureglur og voru aldrei ætluð til frambúðar. Það er líka fagnaðarefni að ekki er verið að tala um botngangaleið Framsóknarflokksins sem var óboðleg leið og hefði aldrei verið fær.

Talandi um samgönguæðarnar til og frá Reykjavík er ágætt að nefna hér að í gær veitti hæstv. forsætisráðherra, að viðstöddum hæstv. samgönguráðherra og þingmönnum Suðurkjördæmis, viðtöku 25 þúsund undirskriftum íbúa héðan og þaðan af Suðurlandi og Íslandi öllu þar sem skorað var á samgönguyfirvöld að flýta tvöföldun Suðurlandsvegar og ráðast í tafarlausa tvöföldun á veginum. Þar er viðvarandi hættuástand og gífurlegur umferðarþungi og margt sem kallar á þessa tvöföldun. Það væri fróðlegt að fá viðbrögð hæstv. samgönguráðherra að mótteknum þessum 25 þúsund undirskriftum.

Hér er einnig rætt um ástandið í Palestínu. Þar eru framin hörmuleg mannréttindabrot, þar er hafður uppi níðingsháttur í garð Palestínumanna og það er sjálfsagt og rétt að ríkisstjórn Íslands og Alþingi lýsi yfir eindregnum stuðningi við Palestínu þar sem morð eru framin hvern dag, þar ríkir óöld. Þaðan berst núna neyðarkall, þar er hungur og hörmungar og sjálfsagt mál að ríkisstjórn Íslands lýsi samstöðu með þessari þjáðu þjóð. Því er fagnaðarefni að það mál var tekið hér upp í dag og minnst á það við þinglok að þar eru framin níðingsleg mannréttindabrot á hverjum degi. Okkur ber að standa með þessari þjáðu þjóð.