133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[09:58]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem kom inn í þingið í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara hinn 19. júlí í sumar. Við í stjórnarandstöðunni leggjum fram breytingartillögur í sömu veru og tillögur okkar í þingsályktun um nýja framtíðarskipan lífeyrismála þar sem við leggjum til afnám tekjutengingar við tekjur maka, hærri tekjutryggingu, minni skerðingar vegna tekna og að öryrkjar fái að halda örorkuuppbót eftir að þeir verða 67 ára gamlir. Hún fellur nú niður og greiðslur þeirra lækka sem henni nemur þegar þeir ná ellilífeyrisaldri.

Þessar breytingar og nokkrar í viðbót leggjum við til í sérstöku þingskjali en munum auðvitað greiða atkvæði með þeim atriðum og nokkrum lagatæknilegum atriðum sem koma fram í frumvarpinu og tengjast ekki yfirlýsingunni frá því í sumar.

Við munum sitja hjá að okkar tillögum felldum en við munum að sjálfsögðu greiða þessu máli atkvæði okkar í lokin vegna þess að þetta eru þó kjarabætur. Eins og kom fram í umræðunni í gær eru þetta kjarabætur en það er ekki gengið nógu langt, við getum ekki sætt okkur við að tekjutengingar við tekjur maka haldi sér áfram að afgreiddu þessu þingmáli. Það er ekki viðunandi fyrir lífeyrisþega og þess vegna sitjum við hjá við afgreiðsluna eftir að okkar tillögur hafa verið felldar — ef þær verða felldar.