133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[10:17]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er tillaga um að öryrkjar sem missa starfsgetuna, oft snemma á ævinni og hafa engin tök á að safna sér lífeyrisréttindum í lífeyrissjóðum og fá viðurkennda örorkuuppbót vegna þessa missi hana ekki þegar þeir verða 67 ára. Í dag missa þeir örorkuuppbótina við 67 ára aldur og fá mun lægri greiðslur úr almannatryggingunum eftir það og hafa lítil sem engin tök á að auka tekjur sínar eftir að 67 ára aldri er náð. Það er ekki ódýrara fyrir fatlaða og öryrkja að verða gamlir. Það eru meiri útgjöld. En mér sýnist ríkisstjórnarmeirihlutinn ætla að fella þessa miklu réttarbót fyrir öryrkja sem ná því að verða ellilífeyrisþegar. Ég segi já.