133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[10:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er gengið til atkvæðagreiðslu um breytingu á lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Það var dapurlegt glapræði af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, á sínum tíma að selja Símann. Engu að síður var það gert með fyrirheitum um að hluti söluandvirðisins gengi til mjög brýnna samfélagslegra verkefna sem höfðu verið fjársvelt á undanförnum árum. Gefin voru út sérstök lög af þessu tilefni um ráðstöfun á söluandvirði Símans. Þar voru vegaframkvæmdir, sjúkrahúsbyggingar, menningarhús, Árnastofnun o.s.frv., mörg verkefni sem ekki höfðu fengið fjármagn á undanförnum árum.

Nú eiga þessi lög að fara að koma til framkvæmda. Hvað er þá það fyrsta sem er gert? Flutt er frumvarp um að skera niður eða fresta ráðstöfun fjár af þessu söluandvirði. Og hvar er fyrst borið niður? Í vegaframkvæmdum, þar er fyrst borið niður til að skera niður fjármagn. Vegaframkvæmdum á Vestfjörðum er frestað, vegaframkvæmdum á Norðausturlandi er frestað, vegaframkvæmdum í höfuðborginni er frestað — það er það fyrsta sem gripið er til.

Frú forseti. Mér finnst þetta vera dapur leikur sem sýnir að þau áform um að verja söluandvirði Símans til sérstakra brýnna verkefna var bara sýndarmennska. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd flytjum breytingartillögu þar sem lagt er til að fallið verði frá frestun á framlagi til vegamála í heild sinni, alls að upphæð 2,1 milljarður kr., og það verði frekar heimilt að lána fé á milli verkefna innan vegáætlunar 2007 að því marki sem ekki er hægt að nýta það fjármagn til þeirra verkefna sem það er eyrnamerkt fyrir. Ég vek athygli á því að við erum að ræða hér frestun á fé til vegaframkvæmda. Vegáætlun, samræmd samgönguáætlun, er ekki enn komin fram og við ræðum hér, og meira að segja hæstv. samgönguráðherra sérstaklega, út og suður um hvaða verkefni í vegamálum eigi að taka frekar á næsta ári.

Að okkar er mati afar brýnt að staðið sé við þau fyrirheit sem gefin voru um vegaframkvæmdir og þess vegna munum við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, standa gegn þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til, en leggjum til að tillaga okkar um að fallið verði frá niðurskurði til vegaframkvæmda verði samþykkt.