133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[10:56]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er enn á ný verið að færa til og fresta og leggja af þær áætlanir sem búið var að gera. Það er ekki þörf á því að fresta framkvæmdum við vegi á Vestfjörðum og norðausturhorni landsins þar sem menn hafa á undanförnum árum annars vegar barist við það að fá samþykki fyrir því að leggja vegi á milli staða sem gætu stytt vegalengdir og hins vegar að koma þeim vegum sem ekki þola umferð í dag og eru með gamla malarlaginu yfir í nútímavegi. Það er nauðsynlegt að fólk horfi til þess að gera þarf verulegt átak í vegaframkvæmdum hér á landi. Það á ekki bara við þær nauðsynlegu framkvæmdir sem snúa að höfuðborgarsvæðinu og helstu leiðum út af því svæði. Það á líka við á þeim svæðum þar sem vegakerfið er langt á eftir tímanum.

Þess vegna leggjum við til að þessari frestun og þeim tilfærslum sem hér er verið að gera verði ekki fylgt eftir. Við leggjum til að hætt verði við þetta.