133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

ættleiðingarstyrkir.

429. mál
[11:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hér er Alþingi að samþykkja mál sem margir þingmenn hafa barist fyrir allar götur frá árinu 1986. Það er sannarlega hægt að óska hæstv. félagsmálaráðherra til hamingju með að hafa hrint þessu baráttumáli í framkvæmd. Það hefði hins vegar aldrei tekist nema vegna þess að það tókst góð samstaða stjórnar og stjórnarandstöðu um þetta mál. Ég þakka sérstaklega hv. formanni félagsmálanefndar, Dagnýju Jónsdóttur, sem beitti sér fyrir nauðsynlegum breytingum á þessu frumvarpi til þess að svo góð samstaða tækist um málið. Þetta er mikið framfaraspor sem margir hafa beðið eftir og sjálfsagt að við óskum okkur sjálfum til hamingju með að hafa náð þessu litla réttlætismáli í höfn.