133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[12:47]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta síðasta er misskilningur. Ég sagði að fólk fengi alls konar hlunnindi en það væri hvergi getið um að þau væri skattfrjáls. Ég var einmitt að hvetja menn til að taka á því og segja hvaða hlunnindi væru skattfrjáls og hver ekki. Þetta var misskilningur.

Ég ætla ekki að ræða um mismunandi heimssýn okkar hv. þingmanns. Ég er bara ánægður með það að hann skuli vera á öndverðum meiði við mig. Ég er bara virkilega ánægður með það. Það styður mig í minni trú.

Varðandi hins vegar aðila úti í bæ sem semja frumvörp og leggja þau fyrir Alþingi verð ég að hryggja hv. þingmann sem þátttakanda í þessari löggjafarsamkundu með því að flestöll stærstu mál á sviði skatta, velferðarmála o.s.frv. eru ákveðin af aðilum vinnumarkaðarins. Ef við förum í gegnum söguna 50–60 ár aftur í tímann hafa flest mál komið utan úr bæ en ekki fyrir frumkvæði hv. alþingismanna.

Það er niðurlæging Alþingis, herra forseti, að þetta skuli vera svona, að Alþingi skuli ekki hafa neitt frumkvæði að því að semja frumvörp sjálft. Nánast engin frumvörp sem samþykkt eru á Alþingi eru samin af þingmönnum sjálfum.

Þetta er niðurlæging Alþingis, herra forseti. (Gripið fram í.) Ég er að mótmæla því. Ég er að benda hv. þingmönnum á að það eru aðrir aðilar en þeir sjálfir sem móta þjóðfélagið sem við búum í. Samt erum við kosin og samkvæmt stjórnarskránni höfum við það vald að ákvarða og setja ramma um það þjóðfélag sem við búum í en við tökum alltaf við frumvörpum annars staðar frá og stærstu málin eru ákveðin hjá ASÍ og Samtökum atvinnulífsins.