133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[12:49]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf ekkert að koma á óvart að haft sé samráð við þegna þessa lands og fulltrúa stórra samtaka þegar teknar eru ákvarðanir og mótaðar grundvallarreglur um skipulag samfélagsins. Það er eðlilegt að hafa slíkt samráð. Þó að einstaklingar séu kosnir til setu á löggjafarsamkundunni þýðir það ekki að þeir eigi ekki að hafa samráð við nokkurn mann eða ræða við nokkurn mann þegar verið er að taka ákvarðanir sem skipta allt samfélagið miklu máli.

Ég skil ekki þennan málflutning hv. þingmanns. Hins vegar er kannski kjarninn sá, og það endurspeglast í orðum hv. þingmanns, að þegar ríkisstjórnir sitja sem enga stefnu hafa, enga hugmyndafræði og enga hugsun um það hvernig samfélagið eigi að þróast, er ekkert óeðlilegt að aðilar úti í bæ taki frumkvæði, móti ákveðna sýn og dragi daprar ríkisstjórnir (Forseti hringir.) í réttan farveg.