133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[12:51]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var ansi merkilegt að hlusta hér á ræðu hv. þm. Péturs Blöndals, talsmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns efnahags- og viðskiptanefndar og þar af leiðandi talsmanns Sjálfstæðisflokksins í þeim málum sem lúta m.a. að skattamálum. Þau voru mörg gullkornin sem hér hrutu af vörum hans og ástæða til að halda þeim til haga.

Þingmaðurinn sagði m.a. að hinir skattlausu hefðu áhuga á að auka útgjöld ríkisins. Þeir væru sá hópur sem hefði sérstakan áhuga á því. Ég veit ekki til þess að hinir skattlausu taki hér ákvarðanir um framlög til háskólamála, vegamála, heilbrigðismála og annarra slíkra mála, að þeir séu ábyrgir fyrir því. Að sjálfsögðu ekki.

Þingmaðurinn sagði líka að frumvarpið sem hér væri til umfjöllunar væri til þess fallið að auka meðalmennskuna í samfélaginu og letja fólk til vinnu. Þetta sagði þingmaðurinn hér. Það var eiginlega svo merkilegt að hlusta á þingmanninn, þennan talsmann Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd, að hann talaði algerlega gegn því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Hann talaði gegn sínu eigin nefndaráliti. Það er makalaust að hlusta á slíkan málatilbúnað.

Hið eina sem hann gat kannski talað fyrir var skattleysi heimgreiðslna sem hafa nú verið teknar upp í tveimur sveitarfélögum, þ.e. í Reykjavík og Kópavogi. Það er verið að hola skattkerfið til að þóknast sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum í tveimur sveitarfélögum. Í þessu tekur þátt hv. þingmaður sem alltaf talar um mikilvægi þess að umgangast ekki skattkerfið með þeim hætti.

Hann er að hola það hér, bara vegna þess að hann er að þjóna sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum í tveimur tilteknum sveitarfélögum. Það er fásinna sem hann heldur hér fram, að þetta hafi eitthvað með hlunnindagreiðslur og framlög síðan til skóla- og leikskólamála sveitarfélaganna (Forseti hringir.) að gera. Þetta eru alveg gerólík mál.