133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[12:53]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt skattalögum á að skattleggja hlunnindi. Það er bara svo einfalt. Það væri skemmtilegt ef upp kæmi virkilega herskár skattstjóri og færi að skattleggja þessi hlunnindi. Það er hvergi í skattalögunum neitt um að þetta skuli vera skattfrjálst.

Ég hvet til þess að menn skilgreini þetta sem skattfrjálst þannig að það sé ekki undir geðþóttaákvörðun skattstjóra komið hvað er skattfrjálst og hvað ekki. Það stendur hvergi í lögum að grunnskólaþjónusta sé skattskyld eða skattfrjáls hlunnindi foreldra eða barns. Það er hvergi stafur um það í lögum. Ég er að hvetja til að menn telji upp hvað er skattfrjálst og hvað er skattskylt þannig ef að sveitarfélögunum skyldi detta í hug að borga foreldrum kannski í formi ávísana sem ég tel mjög skynsamlegt sé það skattfrjálst.

Ef Reykjavíkurborg ákveður að láta hvert barn hafa 500–600 þús. kr. sem kostar að hafa eitt barn í grunnskóla á ári og barnið gæti valið sér skóla, annaðhvort einkaskóla eða opinberan, til að borga með þessari ávísun ætti það að vera skattfrjálst. Þetta er það sem ég legg til, að menn viti a.m.k. betur hvað er skattfrjálst og hvað skattskylt en hafi ekki skattalögin með hlunnindum inni sem skattskyld og svo er það ákvörðun skattstjóra hvort hann skattar þau eða ekki.