133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[13:04]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti á þskj. 570 en að álitinu standa með mér hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Ögmundur Jónasson og Lúðvík Bergvinsson. Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Ég mæli einnig fyrir breytingartillögum sem fluttar eru á þskj. 571 sem ég flyt ásamt sömu hv. þingmönnum.

Meginbreytingarnar í þessu frumvarpi fela í sér að það er verið að hrinda í framkvæmd yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júní sl. sem tengist samkomulagi ASÍ og SA og tengist áframhaldi á gildandi kjarasamningum. Með frumvarpinu er tekjuskattur einstaklinga lækkaður um 1% í stað 2% eins og áformað var og þess í stað er lagt til að persónuafsláttur einstaklinga hækki úr rúmum 29 þús. kr. á mánuði í 32 þús. kr. og það þýðir að skattleysismörkin fara úr 79 þús. kr. í 90 þús. kr.

Hvers vegna skyldi það nú vera að ASÍ hafi reynt að knýja þessa breytingu fram í kjarasamningum? Það er vegna þess að sú leið sem hér er valin, þ.e. að láta ígildi eins prósentustigs í tekjuskatti koma fram í hærri skattleysismörkum og persónuafslætti, skilar sér miklu betur til fólks með lágar og meðaltekjur. Um þetta hefur verið talað lengi hér á hv. Alþingi vegna þess að ríkisstjórnin hefur gert í því raunar allar götur frá 1995 að skerða skattleysismörkin, sem ættu í dag að vera einhvers staðar á milli 130 og 140 þús. kr. ef þau hefðu ekki verið skert með þeim hætti sem ríkisstjórnin hefur staðið að. Það hefur auðvitað orðið til þess að þær leiðir sem ríkisstjórnin hefur valið í skattalækkunum hafa fyrst og fremst skilað sér til hátekjufólksins. Það er óþarfi að rifja það upp mjög ítarlega á þeim stutta tíma sem við höfum í þinginu til að ræða þetta mál, svo oft höfum við gert það.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur fram að hugmyndin á bak við breytingarnar var að fallið yrði frá lækkun annars af þeim tveimur prósentustigum tekjuskatts sem lögfest höfðu verið og að persónuafsláttur yrði hækkaður sem næmi tekjum ríkissjóðs af einni tekjuskattsprósentu.

Samtök atvinnulífsins telja að þetta hafi ekki skilað sér að fullu í persónuafslættinum og segja í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Í því ljósi er eðlilegt að fjárhæð persónuafsláttar verði endurskoðuð til hækkunar þannig að formbreyting skattalækkunarinnar úr skatthlutfalli persónuafsláttar verði hlutlaus fyrir ríkissjóð.“

ASÍ tók í sama streng í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar um málið þannig að til þess að ígildi 1% í tekjuskatti skili sér að fullu í persónuafslættinum og hærri skattleysismörkum þarf að bæta 800 milljónum — sem Samtök atvinnulífsins kalla hér eftir og ASÍ tekur undir — inn í persónuafsláttinn og skattleysismörkin og við það mundu skattleysismörkin hækka um 1.100 kr. og fara úr 90 þúsund í 91.100 kr. ef þetta allt hefði skilað sér þar inn. Það er m.a. einn hluti af þeirri breytingartillögu sem ég mæli hér fyrir.

Þegar þetta nefndarálit var skrifað höfðum við ekki enn þá fengið útreikninga á því til þess að sjá hvað það þýddi ef bæði prósentustigin mundu skila sér í hækkun á skattleysismörkum og persónuafslætti en það kom reyndar síðar, eftir að álitið var lagt fram, og þá staðfestu þeir útreikningar raunar eina ferðina enn að það að flytja bæði prósentustigin yfir í persónuafsláttinn til hækkunar á skattleysismörkum kom sér miklu, miklu betur fyrir fólk með lágar og meðaltekjur. Það yrði því þannig að fólk með 300 þús. kr. eða minna á mánuði, eða 3,6–3,7 millj. á ári, sem eru rúmlega meðaltekjur, mundi greiða minna í skatt með þeirri leið að láta tvö prósentustigin ganga í persónuafsláttinn og skattleysismörkin í stað þeirrar leiðar sem ríkisstjórnin velur. Sennilega eru það um fimm þúsund færri einstaklingar sem munu greiða skatt samkvæmt þeirri leið að láta bæði prósentustigin ganga í það að hækka skattleysismörkin. Það er auðvitað löngu kominn tími til þess, virðulegi forseti, að farin sé sú leið að skattalækkanir hér á hv. Alþingi skili sér með betri hætti til lágtekjuhópa, lífeyrisþega og til fólks með meðaltekjur. Þetta, eins og ég sagði, skilar sér betur til fólks sem er yfir meðaltekjum.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, sem er 1. flutningsmaður að breytingartillögu sem við flytjum, mun örugglega gera grein fyrir því síðar í umræðunni.

Í upphaflegri grein frumvarpsins var ákvæði sem fól í sér að heimild í 65. gr. skattalaga til að lækka tekjuskattsstofn vegna verulegra útgjalda vegna menntunar barna, þ.e. þess sem greitt er með börnum og unglingum frá 16–21 árs aldri yrði breytt á þann veg að einungis yrði hægt að beita þeim skattaívilnunum vegna barna frá 18 til 21 árs aldurs. Það átti sem sagt að klípa árin 16 og 17 ára af þannig að greiðslur vegna menntunar barna á þeim aldri áttu að falla niður og rökin voru þau að það væri verið að taka upp hærra aldursviðmið í barnabótum, þ.e. þeim sem eru tekjutengdar eða úr 16 í 18 ár. Þessu er auðvitað ekkert saman að jafna vegna þess að aðrir hópar fá líka sams konar menntunarívilnanir, þeir sem t.d. ekki fá barnabætur greiddar eftir að þetta er orðið að lögum, 16–18 ára viðmiðið, þ.e. þeir sem ekki njóta tekjutengdra barnabóta.

Þetta var auðvitað mjög gagnrýnt vegna þess að það var alveg ljóst að þetta mundi sérstaklega bitna á fjölskyldum á landsbyggðinni sem þurfa að senda börn sín um langan veg í framhaldsskóla, og vitaskuld hafa þessar skattaívilnanir líka gagnast mjög fjölskyldum á höfuðborgarsvæðinu en þær geta að hámarki verið 204 þús. kr. á ári. Því er ástæða til þess að fagna því að stjórnarliðar lögðu á flótta í þessu máli eftir að þeim var gert ljóst að auðvitað væri ekkert vit í því að fara í þessa breytingu og þeir féllust á röksemdir ASÍ og stjórnarandstöðunnar í málinu við lokaafgreiðslu þess í nefnd en þá var fallið frá þessum áformum og því ber sannarlega að fagna.

Í frumvarpinu eru einnig ákvæði sem lúta að úrbótum á vaxtabótakerfinu. Það er talað um að hækka eigi viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta um 6% til þess að þær haldi raungildi sínu á árinu 2007. Við bendum á að þessar greiðslur þurfa raunverulega að fara í 12%, þessar hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum, ef taka á með þær breytingar sem urðu milli áranna 2005 og 2006. Alþýðusamband Íslands hefur m.a. bent á þetta og við í minni hlutanum flytjum breytingartillögu um að hækkun á viðmiðunarfjárhæðum vaxtabóta fari í 12% í stað 6% eins og ríkisstjórnin leggur til.

Það væri auðvitað full ástæða, virðulegi forseti, til þess að fara hér ítarlega yfir vaxtabótakerfið og þær skerðingar sem fólk hefur mátt sæta í tíð núverandi ríkisstjórnar á vaxtabótum en ríkisstjórnin hefur verið mjög flink að finna alls konar leiðir ár eftir ár til þess að skerða vaxtabótakerfið sífellt meira og meira sem er aðallega íhaldsmönnum þyrnir í augum. Það er eins og menn átti sig aldrei á því að það verið að koma í bakið á fólki þegar verið er að skerða vaxtabætur vegna þess að fólk hefur gert áætlanir sínar, t.d. varðandi húsnæðisöflun, með tilliti til vaxtabótanna.

Ég vil næst víkja að því sem nokkuð var rætt hér í andsvörum og snertir svokallaðar heimgreiðslur og fram kemur í 2. gr. frumvarpsins. Ég held að það megi segja, virðulegi forseti, að hér er á ferðinni mjög alvarleg stefnubreyting á sviði jafnréttismála og í málefnum ungbarnafjölskyldna almennt. Eins og hér kom fram hafa tvö eða þrjú sveitarfélög sem stjórnað er af sjálfstæðismönnum tekið upp slíkar heimgreiðslur. Það er ástæða til þess að vitna til þess að í Noregi voru teknar upp svona heimgreiðslur fyrir einhverju síðan og reynslan af þeim er mjög slæm og nú íhuga Norðmenn að leggja þær af. Þær hafa nær eingöngu verið nýttar af mæðrum og því stuðlað að því að konur hverfi af vinnumarkaðnum og það vinnur auðvitað gegn jafnrétti kynjanna.

Í 2. gr. er lögð til heimgreiðsla sem foreldrar eða forráðamenn barna fá frá sveitarfélagi til að annast barn og að hún sé undanþegin skattskyldu. Þessar greiðslur eru aðallega hugsaðar vegna barna þegar fæðingarorlofi lýkur til tveggja ára aldurs. Þær eru valkvæðar þannig að jafnvel þó að þjónusta hjá sveitarfélaginu bjóðist þá getur fólk valið hvort það tekur þjónustuna eða velur þessar greiðslur sem ég held að séu yfirleitt um 30 þús. kr. á mánuði. Fyrirkomulagið er þannig að foreldrar geta ákveðið hvor þeir taka þessar heimgreiðslur eða nýta sér leikskólapláss eða þjónustu dagmæðra. Það er auðvitað full ástæða til þess að óttast að ef sveitarfélögin innleiða heimgreiðslur og þær festast í sessi að þær geti leitt til bakslags í jafnréttisbaráttunni og að þær geti leitt til þess að framþróun í fæðingarorlofslögunum seinki eða uppbyggingu leikskólaplássa fyrir yngri börn sem nú hafa ekki aðgang að leikskóla. Auk þess tryggja þessar greiðslur, sem eru eins og ég sagði um 30 þús. kr. á mánuði, engan veginn það að ná því markmiði sem sett er fram með þeim en tilgangur þeirra er að styðja við foreldra sem leggja áherslu á að vera heima með börn sín eftir að fæðingarorlofi lýkur. Eða má spyrja: Er þarna um eitthvert val að ræða fyrir foreldri, að vera heima eða ekki fyrir 30 þús. kr. á mánuði? Það er nú varla hægt að kaupa pössun fyrir það út mánuðinn fyrir þá sem vilja engu að síður vera á vinnumarkaðnum og taka þessar heimgreiðslur. Síðan veit auðvitað enginn í hvað þeim er eytt þessum 30 þús. kr. sem fjölskyldur fá í stað þess að þiggja þjónustu dagmæðra eða leikskóla.

Við teljum að það eigi fremur að vinna að því að lengja fæðingarorlof, t.d. í 15 mánuði og að börn komist á leikskóla við 15 mánaða aldur. Fyrir Alþingi liggur tillaga um að fara þá leið að félagsmálaráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga verði falið að kanna hvernig auka megi þjónustu við ungbarnafjölskyldur frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn kemst á leikskóla.

Síðan er önnur hlið á þeirri leið sem ríkisstjórnin er að fara. Hún er náttúrlega, eins og hér kom fram, alveg greinilega að hola skattkerfið og opna fyrir það að upp muni koma ýmsar kröfur úti í þjóðfélaginu um að fleiri sambærilegar greiðslur verði einnig undanþegnar skattskyldu. Ég veit ekki hvernig ríkisstjórnin ætlar að fara að verja það þegar t.d. foreldrar langveikra barna sem fá greiðslur, vegna þess að í mörgum tilvikum getur þetta fólk ekki verið á vinnumarkaðnum. Fyrir einu eða tveimur árum voru samþykktar greiðslur til foreldra langveikra barna, sem eru að vísu lágar eða rúmar 90 þús. kr. á mánuði, og auðvitað eiga þær þá með sama hætti að vera skattfrjálsar eins og þessar heimgreiðslur. Fulltrúi ríkisskattstjóra, sem kom á fund nefndarinnar, tók undir það að þessar greiðslur væru auðvitað nákvæmlega sama eðlis. Og auðvitað munum við, ef þessar heimgreiðslur ná fram að ganga sem allt bendir til, flytja tillögu við 3. umr. um að greiðslur til foreldra langveikra barna verði með sama hætti undanþegnar skatti. Það er útilokað bara með tilliti til jafnræðisreglunnar fyrir stjórnarliða að fella slíka tillögu.

Í umsögn ríkisskattstjóra kom fram og hann benti á það að ekki eru undanþágur í skattskyldu á bótum til maka eða annarra sem heldur heimili með elli- og örorkulífeyrisþega sem eru greiddar á grundvelli laga um félagsþjónustu en slíkar bætur ráðast m.a. af umönnunarþörf lífeyrisþega. Ríkisskattstjóri eða fulltrúi hans sagði einnig að ef þetta ætti að ganga í gegn, þá ættu þær greiðslur líka að vera undanþegnar skatti. Það er því auðvitað verið að opna á alls konar leiðir og kröfur um það úti í þjóðfélaginu að sambærilegar greiðslur eða styrkir verði undanþegnir skatti. Hvað með fjárhagsstyrk sveitarfélaga? Þetta rennir auðvitað stoðum undir það líka að fjárhagsstyrkir sveitarfélaga ættu að vera skattfrjálsir með sama hætti.

Það væri auðvitað hægt að hafa um þetta mörg orð en ég ætla að virða það samkomulag sem hér hefur verið gert um tíma í þessum umræðum þó að full ástæða hefði verið til að ræða þetta betur. Ég hefði viljað ræða hér barnabætur sem verið er að breyta. Að vísu er verið að auka þær og var eiginlega kominn tími til þess að gera það eftir allar þær skerðingar sem hafa gengið í gegn á barnabótum. En raungildi barnabóta og þær greiðslur sem hafa farið úr ríkissjóði í barnabætur hafa verið skertar verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Ég vil að lokum nefna tillögu sem við flytjum um að arður frá einu hlutafélagi til annars verði undanþeginn staðgreiðslu en fyrir því voru færð rök hjá einum umsagnaraðila sem kom á fund nefndarinnar og á það var bent að telja verði óeðlilegt að haldið sé eftir staðgreiðsluskatti af arðstekjum hlutafélaga. Tekjur þessar má draga frá tekjuskattsstofni slíkra félaga og því er verið að halda eftir skatti af tekjum sem í raun eru ekki skattskyldar. Í frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir að ekki verði þörf á að halda eftir fjármagnstekjuskatti af arði sem úthlutað er milli þeirra félaga sem samsköttuð eru en minni hlutinn leggur til að þetta ákvæði nái einnig til arðgreiðslna milli hlutafélaga sem eru hvort sem er undanþegin skattskyldu en haldið eftir í staðgreiðslunni. Þarna er því raunverulega verið að halda eftir fé sem samkvæmt skattalögum á ekki að fara í ríkissjóð, ríkissjóður getur haft af þessu vaxtatekjur í einhverja mánuði, kannski allt upp í 18 mánuði og verið með þetta sem geymslufé og því eðlilegt að undanþiggja þetta einnig í staðgreiðslunni.

Ég hef lýst, virðulegi forseti, þeim breytingartillögum sem við flytjum hér og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson mun síðan lýsa annarri breytingartillögu sem við erum með sem snertir það að auka hér enn frekar á persónuafslátt og hækka skattleysismörkin.