133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[13:36]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem við erum að ræða hérna er út af fyrir sig ekkert nýtt. Umræða hefur farið fram um þetta atriði áður. Röksemdir mínar eru í meginatriðum þær sömu og koma fram í nefndaráliti hjá nefndinni og í greinargerðinni með frumvarpinu.

Ég held hins vegar að hv. þingmaður sé kannski að lesa heldur meira í þetta en ég hef lagt upp með í flutningi frumvarpsins, þó auðvitað kæmi það til skoðunar hvernig farið er með þetta í framtíðinni eða eitthvað sem væri hægt að jafna til við ef það kæmi upp. En samt sem áður er verið að reyna að gera þetta á kerfisbundinn hátt.

Annað mál er hér til umræðu líka. Það er breytingartillaga með frumvarpinu frá Dagnýju Jónsdóttur, sem hér er flutt og ég veit um og styð hana. Hún er um að ættleiðingarstyrkirnir teljist ekki til tekjuskattsstofns. Það er því samræmi þar á milli.

Þetta eru hlutir sem eru greiddir af hinu opinbera á annan hátt án þess að þeir séu þar taldir til hlunninda og þar með skattskyldir. Síðan er verið að gera þetta á þennan þátt í þessu tilfelli og það er verið að láta jafnræðið gilda.

Þetta getur tekið til allra landsmanna ef sveitarstjórnirnar vilja. Hins vegar er ekkert verið að stýra sveitarstjórnunum, hvað þá að verið sé að stýra konum. Það hafa allir val um þetta.

Ég held reyndar að þegar hv. þingmaður talar um að ekkert þak sé á þessu sé hann að fara út í það sem maður gæti talið að væri tekjuskattsstofn. Ég held að við eigum að bera meira traust til sveitarstjórnanna en svo að vera að setja þetta í þann búninginn.