133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[13:43]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu sem ég er 1. flutningsmaður að. Ásamt mér standa að tillögunni hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ágúst Ólafur Ágústsson og Ögmundur Jónasson.

Tillagan gengur út á það að breyta þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað í skattastefnu sinni, þ.e. því sem ASÍ náði ekki fram. ASÍ náði því fram í viðræðum við ríkisstjórnina að 1% af fyrirhugaðri skattalækkun um næstu áramót, sem átti að vera 2%, yrði fært yfir í persónuafsláttinn. (Gripið fram í.) ASÍ náði því fram í viðræðum við ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hefur einhverjar áhyggjur af máli mínu, heyri ég. ASÍ náði því fram í viðræðum við ríkisstjórnina að horfið var frá áformum um að lækka prósentuna flatt um 2% um næstu áramót þannig að 1% af þeirri lækkun færðist yfir í persónuafslátt. Þannig er það í frumvarpinu sem við ræðum um núna. Það hefur m.a. orðið til þess, ásamt öðrum hækkunum á persónuafslætti, að hækka skattleysismörkin úr 79 þús. kr. í 90 þús. kr.

Við í stjórnarandstöðunni höfum margsinnis talað um það í haust, einkum í sambandi við fjárlagafrumvarpið og í tengslum við tillögur okkar í velferðarmálum, að hækka þyrfti rauntekjur þess fólks, eftir skatta, sem lægstar tekjur hefur. Í samræmi við þann málflutning höfum við lagt fram breytingartillögur um að í stað þess að lækka skattprósentuna um næstu áramót í 22,75% verði hún óbreytt eða 23,75% og í staðinn verði persónuafsláttur næsta árs hækkaður úr 385.800 kr. í 419.500 kr. á ársgrundvelli. Það þýðir að í stað þess að persónuafslátturinn verði 32.150 kr. um næstu áramót fyrir hvern einstakling yrði hann 34.960 kr. eða tæplega 35 þús. kr. á mánuði.

ASÍ og Samtök atvinnurekenda hafa bent á það að niðurfellingin og þær breytingar sem gerðar hafa verið hefðu ekki verið færðar að fullu í persónuafsláttinn, hann ætti ekki að vera 90 þús. kr. eftir næstu áramót, eins og ríkisstjórnin leggur til, heldur 91.100 kr. Við höfum sem sagt lagt til að þær 1.100 kr. sem á vantar kæmu til viðbótar þannig að skattleysismörkin færu verulega upp.

Í tillögum okkar um að breyta þessu eina prósentustigi yfir í persónuafslátt, ef það gengur eftir sem við vissulega væntum, færi persónuafslátturinn í tæplega 35 þús. kr. og skattleysismörkin þar af leiðandi upp fyrir 95 þús. kr. Með þúsund króna viðbót færu þau yfir 96 þús. kr. Við færum þá að nálgast það, hæstv. forseti, að af 100 þús. kr. tekjunum verði ekki greiddur skattur.

Mig langar að útskýra þetta í stuttu máli. Ef við skoðum hvaða breytingar yrðu á tekjum í þjóðfélaginu ef tillaga okkar væri samþykkt á Alþingi þá kæmi í ljós að skattgreiðendum í neðstu tekjuþrepunum, þ.e. fólki sem greiðir skatta af tekjum á bilinu 1,5–2 millj. kr. og upp í um tæpar 3,5 millj. kr. mundi fækka um 5.000 miðað við tillögu ríkisstjórnarinnar. Nú eru 80.800 manns á þessu tekjubili. Í þeim hópi mundi fækka. Það yrðu sem sagt ekki 80.800 manns sem greiddu tekjuskatt í lægstu tekjuhópunum heldur mundi þeim fækka niður í 75.800. Þeim fækkar fyrst og fremst í neðsta tekjuhópnum, þ.e. fólki sem í dag greiðir skatta af tekjum sem eru 1,5–2 milljónir á ársgrundvelli. Í þeim hópi fækkar úr 19.800 manns niður í 15 þúsund manns. Þar kemur fækkunin fyrst og fremst fram. Einmitt það fólk sem hefur minnstar tekjur mundi hætta að greiða skatta og njóta færslunnar yfir í persónuafsláttinn.

Allir sem eru með undir 3,5–3,6 millj. kr. í tekjur á ársgrundvelli mundu hagnast og yrði örlítil skattahækkun á fyrstu tekjuhópunum þar yfir, þ.e. einstaklingi með 4 millj. kr. eða 4,5 millj. kr. í tekjur. Skatturinn mundi hækka örlítið þar en fyrst og fremst hækkar skattbyrðin á tekjuhópum með hæstu tekjurnar. Við leggjum til að lágtekjufólkið greiði minni skatta og tilfærslan hafi áhrif á hærri tekjurnar í þjóðfélaginu, einkum þeirra sem hæstar hafa tekjurnar.

Þetta er í samræmi við stefnu okkar varðandi velferðarmál eldri borgara, öryrkja og lágtekjufólk, að fólk lifi af rauntekjum sínum. Með þessari framsetningu teljum við að jafna megi örlítið áhrif þeirra skattbreytinga sem orðið hafa á undaförnum árum sem aukið hafa á misskiptingu í þjóðfélaginu eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á í ræðu og riti. Skattbyrðin hefur hlutfallslega hækkað hjá lágtekjufólki en lækkað hjá hátekjufólkinu.

Samkvæmt úttekt okkar á þessu máli munu allir sem eru með minna en 300 þús. kr. á mánuði, eða 3,6–3,7 milljónir ári, einstaklingar og þá hjón með 7 eða 7,2 millj. greiða lægri skatta. Skattgreiðslur allra skattgreiðenda undir þeim tekjum mundu lækka. Lækkunin verður hlutfallslega meiri eftir því sem tekjurnar eru lægri. Það munar mest um þetta fyrir það fólk.

Þetta er efni tillögunnar, hæstv. forseti, og þarf ekki að skýra hana mikið meira. Þetta þýðir að skattleysismörkin fara upp og fólki í lægstu tekjuhópunum sem greiðir tekjuskatta til ríkisins fækkar. Við förum öfuga leið miðað við það sem ríkisstjórnin hefur farið við að breikka skattstofninn, eins og þeir kalla það þegar þeir fjölga skattgreiðendum í neðstu skattþrepunum. Það hefur verið kallað af ríkisstjórninni að breikka skattstofninn.

Við leggjum til að farið verði í hina áttina, að þeim tekjulágu sem greiða skatta verði fækkað með því að fara með þetta yfir í persónuafslátt. Þar af leiðandi færist skattbyrðin svolítið til og meira yfir á þá sem hæstar tekjur hafa.

Þetta er meginefni tillögunnar, hæstv. forseti. Ég held að við höfum gert samkomulag um að þessi umræða yrði ekki mikið lengri en ein og hálf klukkustund. Ég ætla a.m.k. að gera mitt til þess að standa við það samkomulag. Ég vænti þess að menn sjái tilgang okkar í stjórnarandstöðunni með því að leggja þetta til. Það ætti að vera auðskilið. Þær töflur sem við erum að vitna í hafa verið unnar af fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég geri ráð fyrir því að stjórnarliðar hafi einnig séð þá útreikninga, að þeir séu þeim aðgengilegir eins og okkur.

Það er svo sem ekki mikið meira um þetta að segja, hæstv. forseti. Ég vænti þess að háttvirtir þingmenn vilji almennt bæta stöðu þeirra sem hafa lakari afkomu og efla þannig jöfnuð í þjóðfélaginu.