133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[13:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Að venju eru í frumvarpi þessu nokkur atriði sem tengjast fjárlögum ársins. Þau eru af óskyldum toga, oft og tíðum, eins og gefur að skilja þegar verið er að setja saman í eitt frumvarp ýmis ólík atriði. Það er býsna margt í þessu frumvarpi sem mætti taka fyrir og ræða, bæði almennt og nánar, en ég ætla að afmarka mig við fáein atriði að þessu sinni.

Fyrst vil ég þó nefna þá breytingu að færa fyrirhugaða eða ákvarðaða tekjuskattslækkun um eitt prósentustig í tekjuskatti yfir í skattleysismörkin eða persónuafsláttinn. Ég er almennt hlynntur þeirri breytingu, ég tel hana meira tekjujafnandi en hina. Þegar ráðist var í svo umfangsmikla skattalækkun eins og raun ber vitni, að lækka tekjuskattinn í 4%, þá leiðir af því vegna eðli málsins, þar sem skattgreiðendur eru þeir sem hafa tekjur yfir skattleysismörkum, að lækkunin dreifist til skattgreiðenda, hún dreifist ekki til þeirra sem ekki eru skattgreiðendur. Svo mikil lækkun eykur því muninn sem er á ráðstöfunartekjum eftir tekjuhópum.

Ég hefði kosið að menn hefðu farið blandaða leið, annars vegar að lækka prósentuna og hins vegar að hækka persónuafsláttinn, en það varð ekki niðurstaðan þá. Nú eru menn að stíga skref í áttina að því sjónarmiði með því að taka eitt prósentustig af þessum fjórum og setja það út í persónuafsláttinn. Ég tel það til bóta, það virkar tekjujafnandi. Það dreifir miklum fjárhæðum, meira til þeirra sem hafa lægri tekjur en skattalækkunin í prósentuvís.

Ég er því út af fyrir sig á öndverðum meiði við hv. þm. Pétur Blöndal og er stuðningsmaður þess almennt að fara þessa leið þó ég sé ekki að segja að maður eigi eingöngu að fara þá leið að hækka persónuafslátt. Það þarf að horfa á hitt sjónarmiðið líka, það á sér sín rök. En eins og staðan er núna tel ég þetta betra skref en að halda sig við það sem áður hafði verið ákveðið.

Ég vil vekja athygli á umsögn Seðlabanka Íslands sem mér finnst að mörgu leyti rétt að vekja athygli á, en þar segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi aðstæðna og annarra breytinga á sköttum telur Seðlabankinn skynsamlegt að tekjuskattur verði lækkaður minna en áður hafði verið ákveðið.“

Undir þetta rita Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar, og Eiríkur Guðnason bankastjóri.

Það er athyglisvert fyrir margra hluta sakir, annars vegar sögulega ef svo má segja, að sá sem stóð fyrir skattalækkun í upphafi, Davíð Oddsson, skrifar undir að þetta sé skynsamlegt. Og hins vegar það sem er kannski meira alvörumál, og tengist viðfangsefnum sem menn eru að fást við um þessar stundir, þ.e. efnahagsástandið. Það segir auðvitað að Seðlabankinn er að benda á að það sé ójafnvægi í efnahagsmálunum, það er verðbólga og það er ekki skynsamlegt við þær aðstæður að auka kaupmátt ráðstöfunartekna tekjuhárra hópa mikið því það viðheldur óstöðugleikanum. Ég les það út úr skilaboðum Seðlabankans að hann telji skynsamlegt að hverfa frá þessari leið einmitt vegna þeirra áhrifa.

Ég tek að mörgu leyti undir sjónarmið Seðlabankans, sérstaklega það að mjög mikilvægt sé að menn nái tökum á efnahagsástandinu. Við búum við verðbólgu sem er yfir 7% og hún mun verða yfir 7% á þessu ári. Það kostar almenning í landinu miklar fjárhæðir að verðbólgan er ekki undir þeim 2,5% sem áformað hafði verið. Skuldir heimilanna voru, ef ég man rétt, fyrir ári síðan um 1.050 milljarðar kr. Þær hafa örugglega vaxið eitthvað að raungildi á þessu ári og síðan hefur verðbólgan hækkað þær töluvert eins og gefur að skilja ef verðbólgan hefur verið 7% á árinu. Ég mundi giska á að skuldir heimilanna um næstu áramót yrðu ekki undir 1.200 milljörðum kr. Þá getum við áttað okkur á því hvað það eru háar fjárhæðir sem velta yfir á skuldarana, almenning í landinu, ef verðbólgan er hærri en áformað var. Munurinn á 7% verðbólgu og 2,5% verðbólgu, sem hefði verið ef jafnvægi hefði verið í efnahagsmálunum, er 4,5%. Það munu vera 40–50 milljarðar kr. sem skuldir almennings um næstu áramót væru lægri ef verðbólgan hefði haldist í 2,5% í stað þess að fara upp í 7%. Þetta er kostnaður almennings af því að menn missa að nokkru leyti tök á efnahagsmálunum. Þegar ekki tekst eins og til er ætlast að halda verðbólgunni lágri þá borgar almenningur brúsann. Einmitt í því ljósi hefur mér alltaf fundist varasamt að bæta í skattalækkanir eins og reyndin hefur orðið og ég gat um í umræðunni um fjárlögin, umræðunni um lækkun á virðisaukaskatti á matvæli upp á 89 milljarða kr., sem reyndar verður yfir 12 milljarða vegna þess að áfengisgjaldið verður ekki hækkað á móti, a.m.k. ekki að sinni, sem þýðir um 12 milljarða kr. viðbótarskattalækkun á næsta ári. Sú aðgerð gerir okkur erfiðara fyrir við að ná verðbólgunni niður. Afleiðingin af því er að hún hægir á því að verðbólgan lækki sem þýðir að verðbólgan verður hærri lengur og það kostar peninga. Það kostar peninga fyrir sama fólkið og verið er að færa kjarabætur í formi lækkaðs virðisaukaskatts á matvæli.

Það er mikilvægara að mínu viti að halda verðbólgunni lágri en að lækka álögur eða skatta. Menn eiga að lækka skatta þegar stöðugleiki er í efnahagslífinu. Aðgerðin á ekki að viðhalda óstöðugleika vegna þess að þá kostar hún almenning gífurlegar fjárhæðir eins og sést á því að eitt prósentustig kostar almenning yfir 10 milljarða kr. Ef einhverjar aðgerðir leiða til þess að verðbólga á næsta ári verði, segjum bara einu prósentustigi hærri en ella hefði verið þýðir það 10 milljarða kr. í skuldum. Af þeim skuldum þarf síðan að borga vexti sem eru ekki undir 10% og líklega nær 15% þegar lagðir eru saman raunvextir og verðtrygging. Það eru þá 1–2 milljarðar kr. sem eru bein útgjöld vegna þeirra skuldaaukninga.

Ég legg því mikla áherslu á að efnahagsstjórnunin miðist við það að halda verðbólgunni eins lágri og nokkur kostur er. Það markmið gengur á undan öðrum markmiðum sem kunna að vera ágæt í sjálfu sér, eins og það að lækka skatta á matvæli, að því gefnu að ríkissjóður hafi stöðu til þess að geta veitt þá þjónustu sem menn ætla að veita í gegnum ríkissjóð þrátt fyrir þá skattalækkun. Ég vildi vekja athygli á þessum þætti málsins sem ég held að sé kannski sá allra mikilvægasti þegar allt er tekið saman.

Annað atriði vil ég nefna og það er 2. gr. frumvarpsins um styrki til foreldra frá sveitarfélagi til að annast barn. Ég vara mjög við þessari breytingu. Ég tel hana vanhugsaða og óskynsamlega og hún grefur undan tekjuskattslögunum. Hún býr til mikið ósamræmi sem verður tilefni til þess að farið verður enn frekar inn á þessa braut á fleiri sviðum sem grefur þá undan megintilgangi tekjuskattslaganna, að afla tekna og skilgreina þær tekjur sem á að borga skatta af. Ég tel þessa grein ekki skynsamlega og mæli ekki með því að menn taki þetta upp. Mér finnst líka skýringarnar með þessu máli vera þannig að menn þurfi að fá frekari útskýringar á röksemdunum til að átta sig á hvað er verið að fara. Í frumvarpinu eru veittar skýringar um þetta atriði í 2. gr. og þar segir, með leyfi forseta:

„Tilgangurinn með greiðslum sem þessum er að styðja við foreldra sem leggja áherslu á að vera með börnum sínum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Niðurgreiðslur sveitarfélaga á leikskólagjöldum og daggæslugjöldum í heimahúsum eru ekki skattskyldar hjá foreldrum eða forráðamönnum barna. Með tilliti til jafnræðis er því lagt til að framangreindir styrkir verði ekki taldir til skattskyldra tekna.“

Þessi setning veldur mér dálitlum heilabrotum því ég átta mig ekki alveg á hvað verið er að segja með henni, hvaða jafnræðis er verið að vísa til sem ekki er virt með núverandi löggjöf. Ég hefði gjarnan viljað sjá skýringar á þessu. Að sama skapi eru skýringarnar í nefndaráliti meiri hluta líka þannig að ég held að kalla þurfi aðeins eftir frekari útskýringum. Þar er nefnt að um sé að ræða hlunnindi sem flestir forráðamenn barna njóta en hafa ekki verið skattlögð sem slík vegna félagslegra eiginleika þeirra. Ég hef ekki áttað mig á til hvers verið er að vísa þarna. Það væri ágætt að fá nánari útlistun á þessu.

Meginregla tekjuskattslaga er að allar tekjur séu skattskyldar. Tekjur og hlunnindi eru skattskyld. Það er meginreglan. Menn hafa haldið mjög fast í þá reglu til að halda grundvellinum undir þeirri löggjöf, vegna þess að því fleiri undanþágur sem gerðar eru á þessu þeim mun erfiðara verður að halda hinu skattskyldu sem eftir stendur. Það endar þá með því að lögin breytast og menn verða að hugsa tekjuöflunina upp á nýtt.

Það má segja að í skattalögunum eða öðrum lögum, þó að ekkert sé alveg einhlítt í því, séu nokkuð skýrar línur, þ.e. að greiðslur sem ætlaðar eru til að bera kostnað eru yfirleitt styrkir og ekki skattskyldir. Þar má nefna t.d. vaxtabætur. Þær eru fyrst og fremst hugsaðar til að endurgreiða kostnað sem menn verða fyrir af vöxtum, til að lækka raunverulega þann lið. Barnabætur eru fyrst og fremst hugsaðar til að endurgreiða fjölskyldum kostnað sem verður vegna barnanna. Það mætti nefna fleiri dæmi af þessum toga. Þetta eru ekki launagreiðslur og þess vegna hefur verið farið að með þessum hætti. Húsaleigubætur eru, ef ég man rétt, orðnar skattfrjálsar. Þær voru skattskyldar í upphafi. Um þær gildir hið sama, húsaleigubætur eru til að mæta kostnaði en ekki til að borga þeim sem fær bæturnar laun eða að gera honum kleift að vinna eitthvert starf og styrkurinn væri þá ígildi launa. Þetta er svona línan sem draga má upp og segja að það sem fellur undir endurgreiðslu séu styrkir en það sem ætlað er til að standa undir tekjuöflun viðkomandi einstaklings séu skattskyldar tekjur.

Það er alveg ljóst í þessu tilviki að greiðslurnar eru ætlaðar til þess að foreldri geti verið heima og þurfi ekki að afla sér tekna á vinnumarkaði. Greiðslurnar eru þess eðlis og hafa þann tilgang að vera launagreiðslur. Það er því algert stílbrot að ætla að hafa þær undanþegnar skattskyldu. Með sama hætti, ef menn fara inn á þessa braut, geta menn ekki annað en endað á þeirri niðurstöðu að allar umönnunargreiðslur eigi að vera skattfrjálsar. Fólk fær greiddar umönnunarbætur til að hugsa um einstakling. Það eru laun, það eru launagreiðslur og þær eru taldar fram til tekna og borgaður af þeim skattur. Menn verða að hafa samræmi í þessu.

Fleira má nefna, eins og fæðingarorlofið sjálft. Það hefur sama tilgang og þær greiðslur sem við erum að ræða í þessu frumvarpi. Þær hafa þann tilgang að foreldrar geti verið heima og haft tekjur á þeim tíma en þurfi ekki að afla sér tekna utan heimilis. Fæðingarorlofsgreiðslur eru auðvitað laun sem fólkið fær og eru taldar fram sem tekjur og greiddur af þeim skattur.

Þetta er því algert stílbrot sem mun valda miklum vandræðum verði þetta að lögum. Þetta kallar á aðrar breytingar sem koma á eftir. Það verður erfitt að standa gegn þeim því ef menn hafa á annað borð stigið þetta skref þá er ekki hægt að finna leiðina til að synja sambærilegum málum um sambærilega niðurstöðu. Það endar auðvitað með því að menn verða búnir að veikja svo grundvöllinn undir skilgreiningu á tekjum að taka þarf það mál allt upp. Ég held að ekki sé neinum greiði gerður með slíku. Ég vildi koma þessu sjónarmiði að og vara við þeirri breytingu sem er að finna í 2. gr. frumvarpsins.

Fleira ætla ég ekki að minnast á í þessu frumvarpi af því sem þar er að finna þó að ástæða væri til, en það er hægt að geyma til betri tíma, virðulegi forseti.