133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[14:22]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Herra forseti. Við ræðum um breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Umræðurnar um frumvarpið hafa verið ágætar og ætla ég að fara fáum orðum um tildrög þeirra breytinga sem liggja fyrir í frumvarpinu. Báðir flokkar þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr og hefur stjórnarmeirihluta á þingi kynntu hvor í sínu lagi við síðustu kosningar áherslur sínar í skattamálum.

Áherslur Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2003 byggðust á því að við vildum mæta sérstaklega millitekjuhópum í samfélaginu og ungu fólki sem ber miklar byrðar, borgar háar upphæðir fyrir dagvistun barna sinna, skólagöngu að einhverju leyti, er að byrja að borga niður námslánin á sama tíma og er að fjárfesta í húsnæði. Áherslur okkar í skattamálum, eins og ég sagði, fyrir síðustu kosningar báru keim af aðstæðum þessara hópa og svo þegar ríkisstjórnin batt sig saman með ríkisstjórnarsáttmálanum, ef svo má segja, rötuðu þessar áherslur í gegn.

Tildrög þessa frumvarps eru auðvitað þau að 22. júní í sumar lýsti ríkisstjórnin því yfir að til þess að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga legði ríkisstjórnin sitt af mörkum. Meðal annars fól það í sér að fresta í rauninni síðustu prósentulækkuninni en fyrir lá að lækka tekjuskatt um 4% á þessu kjörtímabili, að fresta þar síðustu prósentulækkuninni og nota í staðinn fjármunina í hækkun persónuafsláttarins og svo ratar það inn í skattleysismörkin. Jafnframt var ákveðið að til þess að greiða fyrir samkomulaginu yrðu teknar upp greiðslur barnabóta til 18 ára aldurs í stað 16 ára og þessi breyting kæmi þá til viðbótar við aðra ákveðna 25% hækkun skerðingarmarka barnabóta og lækkun skerðingarhlutfalla.

Breytingarnar í þessu frumvarpi, ef ég fer yfir það í fáum orðum, eru einmitt í fyrsta lagi að frá og með 1. janúar 2007 muni tekjuskattur einstaklinga lækka um 1% í stað þessarar 2% lækkunar sem fyrirhuguð var. Er þessi tillaga í samræmi við yfirlýsinguna eins og ég hér nefndi.

Í öðru lagi er lögð til hækkun á persónuafslætti, sjómannaafslætti og vaxtabótum frá 1. janúar nk. og verði frumvarpið að lögum mun persónuafsláttur einstaklinga hækka úr 356.180 kr. í 385.800 kr. á ári. Með þessari hækkun og breytingu tekjuskattshlutfallsins hækka skattleysismörk einstaklinga úr 79 þús. í 90 þús. kr. á mánuði, þ.e. um 14%.

Þegar við fórum við meðferð málsins í hv. efnahags- og viðskiptanefnd yfir málið kom í ljós að þetta þýðir að það eru þá 4 þús. manns sem munu til viðbótar ekki greiða skatta eftir þessar breytingar og gerum við þá ráð fyrir að það séu tekjulægstu einstaklingar þessa samfélags, námsmenn að einhverju leyti, öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Það eru afleiðingar þessa.

Í þriðja lagi er lagt til með þessu frumvarpi að persónuafsláttur verði endurskoðaður árlega, í fyrsta sinn frá næstu áramótum, og breytist fjárhæðin því þannig í samræmi við breytingar á gildandi vísitölu neysluverðs næstliðinna tólf mánaða, annars vegar gildandi vísitölu 31. desember 2006 og hins vegar 31. desember 2007. Ég held líka að hér sé stigið mikilvægt skref sem muni til framtíðar vera mjög gott og fagna ég þessu sérstaklega.

Ég minntist í byrjun á barnabæturnar og það er í fjórða lagi breytingin sem er lögð til með þessu frumvarpi. Hún er sérstaklega ánægjuleg og felur í sér að um næstu áramót verða teknar upp greiðslur barnabóta til 18 ára aldurs í stað 16 ára aldurs og verður þetta mikil kjarabót fyrir þær fjölskyldur sem þar eiga hlut að máli en ef ég man rétt kom fram í meðferð nefndarinnar að þetta séu 6 þús. börn til viðbótar og foreldrar þeirra munu þá eiga rétt á barnabótum.

Eins og frumvarpið liggur fyrir hér gerum við, meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar, þær breytingar á því að þessi viðbót, það að fjölskyldur 16–18 ára barna fái barnabætur, hafi engin áhrif á það að nú rétt eins og áður eiga foreldrar barna frá 16 ára aldri, á menntaskólaaldri sem sagt, rétt á að telja fram þann kostnað á móti skatti, fá ívilnun vegna menntunar barna sinna. Þetta hafa um 4.300 fjölskyldur nýtt sér á hverju ári og ég held að þetta sé sérstaklega mikilvægt fyrir þær fjölskyldur sem kosta skólagöngu barna sinna kannski fjarri heimili, fjölskyldur úti á landi sem senda börn sín í þéttbýlisstaði, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða þéttbýlisstaði annars staðar á landinu. Voru nefndarmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, bæði ég og hv. þm. Dagný Jónsdóttir sem tókum þetta sérstaklega upp í meðferð nefndarinnar — og því kom mér á óvart í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að hún skyldi ekki minnast á það hér áðan, en við höfum sameinast um þetta, nefndin, og í sjálfu sér kemur hér fram breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar. Ég er samt viss um að öll nefndin stendur á bak við þessar breytingar vegna þess að það stóð aldrei til og hafði í sjálfu sér farið fram hjá okkur við meðferð málsins í þingflokknum að þetta kæmi að einhverju leyti á móti hækkun barnabótanna. Þetta mun standa áfram og er afar mikilvægt að mínu mati að foreldrar 16–18 ára barna njóti barnabóta. Það er sem sagt þessi breyting, þessi nýlunda, en jafnframt að það hafi ekki áhrif á það að fjölskyldur geti talið kostnað við menntun barna sinna á móti skatti. Ég held að ekki sé um sömu hópa að ræða og þó að fólk hafi það háar tekjur að fjölskyldur fái litlar eða engar barnabætur vegna tekna sinna getur samt alltaf töluverður kostnaður falist í því að senda börn sín um langan veg í skóla, leigja húsnæði og aðra aðstöðu og þess vegna held ég að það sé mikilvægt að við höldum þessu svona.

Ég vil síðan aðeins koma inn á 2. gr. frumvarpsins sem hefur verið nokkuð rædd, hinar svokölluðu heimgreiðslur. Ég vil taka fram að ég álít okkar stærsta verkefni í sjálfu sér varða það bil sem verður milli þess að níu mánaða fæðingarorlofinu lýkur og þess að börn komist til dagforeldra eða á leikskóla. Það er brýnt að við stígum næstu skref í því mikilvæga fæðingarorlofskerfi sem við höfum borið gæfu til að koma á. Í tíð þessarar ríkisstjórnar höfum við lengt fæðingarorlofið í níu mánuði og tryggt rétt barnsins til samvista við báða foreldra sína og ég held, eins og ég segi, herra forseti, að næstu skref í þessu mikilvæga máli séu að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði.

Það breytir því ekki að nokkur sveitarfélag hafa ákveðið að fara þá leið að taka upp svokallaðar heimgreiðslur til foreldra til þess að brúa þetta bil frá lokum níu mánaða fæðingarorlofsins og til þess að barnið komist í dagvistun, hvort sem það er í leikskóla eða hjá dagforeldrum. Frumvarpið bregst við þeim breytingum sem eru að verða en ég álít þetta tímabundið ástand þar sem við erum að stuðla að vali fjölskyldna, vali foreldra um hvernig þær brúa þetta bil en stærsta málið hlýtur að vera að lengja fæðingarorlofið og efla enn frekar dagforeldraþjónustukerfið og leikskólakerfið í sveitarfélögunum um allt land. Hér hafa átt sér stað ágætar umræður um ýmsar hliðar þessa máls, bæði skattalegar og fordæmisgefandi og um jafnréttismálin og ég held að það sé mikilvægt að það komi fram en ég held að þetta sé í rauninni tímabundin aðgerð þar sem verið er að bregðast við þessum aðstæðum.

Ég vildi síðan, herra forseti, taka aðeins upp mál ættleiðingarstyrkja. Við samþykktum hér fyrr í dag að frumkvæði hæstv. félagsmálaráðherra, Magnúsar Stefánssonar, að mínu mati mjög brýn lög um að taka upp ættleiðingarstyrki en við meðferð málsins hjá hv. félagsmálanefnd kom fram að auðvitað þarf að gera breytingar á tekjuskattslögunum og hv. þm. Dagný Jónsdóttir mun bera fram breytingartillögu við það frumvarp sem hér er til umræðu í þeim tilgangi að sá hluti styrksins sem sannarlega er varið til að standa undir kostnaði af ættleiðingu barns komi til frádráttar tekjum. Ég vildi koma sérstaklega inn á þetta hérna, herra forseti, því að við munum greiða um þetta atkvæði á eftir og þá er mikilvægt að það hafi komið fram að brýnt er að taka þessa breytingartillögu inn í meðferð málsins þegar við greiðum um frumvarpið atkvæði seinna í dag.

Herra forseti. Að lokum vil ég segja að ég held að við séum að stíga hér merkileg skref hvað varðar persónuafsláttinn, hækkun skattleysismarkanna og áframhaldandi skattalækkanir ríkisstjórnarinnar sem gerir fjölskyldum þessa lands kleift að ráðstafa tekjum sínum á þann hátt sem hentar þeim best. Við erum um leið að taka upp mikilvægar breytingar á barnabótakerfinu þar sem við færum, eins og ég hef margoft sagt í ræðu minni, aldursmörkin upp í 18 ár í stað 16 og tryggjum um leið að ívilnunarkostnaður vegna menntunar barna er fyrir hendi.