133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[14:33]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Nú er nokkuð liðið á umræðuna og ég hef ekki í hyggju að lengja hana úr hófi fram. Ljóst er að frumvarpið sem hér er til umræðu snertir á tveimur meginþáttum. Annars vegar felast í því skattalækkanir og hins vegar ívilnanir af ýmsu tagi, bætur og undanþágur frá sköttum.

Eins og komið hefur fram byggist frumvarpið á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar frá því í sumar. Það er auðvitað rétt að halda því til haga að það var afar mikilvægt að ná því samkomulagi á sínum tíma. Það hafði jákvæð áhrif á stöðuna í efnahagsmálum á sumar- og haustmánuðum að aðilar skyldu ná saman eins og þar var gert. Það var vissulega mikilvægt framfaraskref að það skyldi takast.

Því er á hinn bóginn ekki að leyna að ég hafði sjálfur ýmsar athugasemdir við ýmis einstök atriði í því samkomulagi og afleiðingar þess, einkum að því sem lýtur að breytingunni á tekjuskattinum sem hér er til umræðu í dag, sem ég taldi og tel verulegt skref aftur á bak.

Við höfðum náð þeim áfanga að samþykkja lækkun á tekjuskattinum um 2% um þessi áramót. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum yfir því að horfið hafi verið frá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar með helming þeirrar lækkunar. Það er að mínu mati ótvírætt skref aftur á bak. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það væri mikilvægt fyrir okkur að ýta tekjuskattshlutfallinu niður og nýta það færi sem við höfum haft á undanförnum árum til að ýta því niður til frambúðar og draga úr þeirri skattheimtu sem ríkisvaldið stendur að gagnvart einstaklingum í landinu.

Fyrir stóra hópa skattgreiðenda munu þær breytingar sem felast í frumvarpinu ekki leiða til neinna breytinga. Hækkun persónufrádráttarins mun leiða til þess að stórir hópar skattgreiðenda verða eins eða betur settir eftir þá breytingu sem felst í frumvarpinu en hefði verið með óbreyttum lögum. En ég held að það hefði verið skynsamlegra til frambúðar að nýta færið til að fara lægra með skatthlutfall einstaklinga.

Það væri kannski rétt að rifja upp, án þess að fara nákvæmlega út í það, að um þessi áramót erum við komin að síðasta áfanganum í skattalækkunarferli þessa kjörtímabils. Allt þetta kjörtímabil höfum við í ríkisstjórnarflokkunum unnið að því að lækka skatta í landinu. Við höfum lækkað tekjuskatt einstaklinga í áföngum. Þriðji áfanginn kemur til framkvæmda um áramótin þótt þar verði um að ræða 1% en ekki 2% eins og áður var að stefnt. En fyrr höfðum við í tveimur áföngum lækkað tekjuskatt einstaklinga um 1% í hvort skipti.

Á kjörtímabilinu höfum við einnig afnumið sérstakan tekjuskatt og afnumið eignarskatt bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Við höfum lækkað og samræmt erfðafjárskatt og gert ýmsar aðrar umbætur í skattamálum sem gerir það að verkum að þessa kjörtímabils verður minnst sem mikils skattalækkunartímabils.

Það er raunar ánægjulegt við umræðuna í dag að hér hefur ekki borið svo mjög á hártogunum um hvort við værum yfir höfuð að lækka skatta eða hækka skatta. En það er ótvírætt og við þetta tækifæri, eins og svo oft áður á þessu kjörtímabili, beita ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir sér fyrir skattalækkunum. Það er ágætt að við höfum ekki þurft að fara út í hártoganir um það í dag.

Ástæðan fyrir því að við höfum getað lækkað skatta allt þetta kjörtímabil er auðvitað sú að vel hefur verið haldið um hag ríkisins á þessu tímabili. Það hefur verið góð afkoma í samfélaginu. Efnahagslífið hefur vaxið hratt. Tekjur manna hafa vaxið hratt. Það hefur verið uppgangur og þess vegna auðveldara að standa að þeim breytingum en ella.

Breytingarnar, bæði breytingar sem varða einstaklinga og skattlagningu á fyrirtæki, sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili, eru ekkert síður til þess fallnar að efla efnahagslífið, efla atvinnulífið, efla hagvöxt og uppgang í samfélaginu til frambúðar. Ég er þeirrar skoðunar að lágir skattar, bæði á einstaklinga og fyrirtæki, sé besta leiðin sem stjórnvöld hafa á hverjum tíma til að stuðla að öflugri uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi.

Ég held að þau skref sem stigin hafa verið á undanförnum árum, á síðasta kjörtímabili með verulegri lækkun fyrirtækjaskatta, á þessu kjörtímabili með verulegri lækkun einstaklingsskatta, verði til þess að efla íslenskt atvinnulíf og hagkerfi til frambúðar.

Ég held að ákvarðanir um skattalækkanir eigi ekki að taka út frá einhverjum skammtímasveiflum í hagstærðum. Þær á að hugsa til lengri tíma og taka þær ákvarðanir sem eru til þess fallnar að gera atvinnulífið öflugra, sterkara og efnahagslífið betra til lengri tíma. Það held ég að við höfum gert, bæði sá stjórnarmeirihluti sem nú situr og einnig þær ríkisstjórnir sem á undan sátu.

Ég vildi, herra forseti, að lokum vekja athygli á því sem mér hefur ekki fundist menn gefa nægan gaum í þessari umræðu, þ.e. hversu stór skref við erum að stíga með þeim breytingum sem við erum að tala fyrir í dag og eins breytingum sem við höfum ákveðið og munu koma til framkvæmda á fyrri parti næsta árs í skattamálum. Við tökum núna síðasta skrefið í ákveðnu ferli skattalækkana á tekjur einstaklinga. En við munum á eftir einnig taka til umræðu mikilvæga breytingu á skattlagningu neysluvarnings, einkum matvæla. En svo menn sjái það í samhengi þá erum við sennilega, með þeim breytingum sem varða tekjuskattinn, að lækka skatta á næsta ári um rúma 12 milljarða kr. Tölurnar nefni ég með fyrirvara vegna þess að skattstofnar breytast og hagstærðir breytast innan árs. En miðað við útreikninga í dag þá erum við að lækka skatta um 12 milljarða með þeim breytingum sem varða tekjuskattinn.

Á eftir tökum við fyrir breytingu sem varðar neysluskattana. Þar erum við að tala um breytingar sem á næsta ári munu leiða til skattalækkana upp á 7–8 milljarða en yrði litið á það á ársgrundvelli þá væri um að ræða yfir 10 milljarða.

Þannig má segja að við tökum undir lok þingsins ákvarðanir sem fela í sér skattalækkanir til heimilanna í landinu upp á 22 milljarða. Það er trúlega einsdæmi að svo stór skref hafi verið stigin í skattalækkunum á einu kjörtímabili, á einu þingi. Ég held að þó að sú breyting sem lýtur nákvæmlega að tekjuskattshlutfallinu sé mér á móti skapi þá hljóti maður að líta á heildaráhrifin af skattastefnu ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili sem felur í sér langstærsta skattalækkunarferli, langstærstu skattalækkunarskref sem stigin hafa verið í nútímasögu Íslands.