133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[14:42]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið enda talað um að hún taki tiltekinn tíma og við munum að sjálfsögðu reyna að standa við það.

Í umræðunni hafa félagar mínir farið ágætlega yfir það sem hér er til umfjöllunar, þ.e. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Guðjón Arnar Kristjánsson og Ögmundur Jónasson. Þau hafa farið yfir þau atriði sem við vildum koma að í umræðunni en að auki eru tvö eða þrjú atriði sem ég vildi nefna í stuttri ræðu.

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, lýsi ég yfir ánægju minni með að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið að breyta frá fyrri kúrs. Ákveðið hafði verið að lækka skattprósentuna um 2% en þess í stað var farin sú leið að hækka skattleysismörkin og persónuafsláttinn og reyna að ná öðru prósentinu þar. Þar er í reynd um ákveðna stefnubreytingu að ræða. Með því er reynt að jafna skattbyrðina frekar frá því sem verið hefur og stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu.

Það er afar mikilvægt að skattkerfið sé að einhverju leyti notað til þess og að sjálfsögðu um leið til að knýja áfram efnahagslífið með hagfelldu skattaumhverfi. En það er geysilega mikilvægt að menn noti skattkerfið til að skapa jöfnuð. Ég er því mjög sáttur við þá stefnubreytingu sem varð sem m.a. var knúin fram af aðilum vinnumarkaðarins og birtist í þessu formi.

Það hefur hins vegar ekki komið á óvart að talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa í þessari umræðu báðir gert talsverðar athugasemdir við þessa leið. Segja mætti að það styðji mann í þeirri trú að við séum á réttri braut, þegar þeir frjálshyggjusinnar sem hafa talað í umræðunni skuli gera athugasemdir við þessa leið.

Í annan stað vildi ég nefna þá grundvallarbreytingu sem fara á í með þeim heimgreiðslum sem nú á að taka upp og þá grundvallarbreytingu sem verður á skattkerfinu. Það á að taka upp skattleysi gagnvart ákveðnum umönnunargreiðslum án þess að skilgreina nægilega vel hvað þar er á ferðinni. Auk þess hefur einnig verið nefnt í umræðunni að þetta kunni að vera skref aftur á bak í jafnréttismálum. Ég treysti mér ekki til að fara lengra inn á þá braut nema að því leyti að ég vísa til þess sem komið hefur fram í þessari umræðu, að Norðmenn fóru þessa leið og nú ræða þeir um að hverfa af þeirri braut. Reynsla Norðmanna, ef marka má þær upplýsingar sem komið hafa fram í umræðunni, er slík að þeir hafa ekki áhuga á að halda áfram á þessari braut, þ.e. að stunda heimgreiðslur sem hér um ræðir.

Í eðli sínu hefur skattkerfið, skattgreiðslurnar, hvort sem það er í formi skatta eða útsvars, ákveðið hlutverk. Það stendur undir ákveðinni samfélagslegri þjónustu, þ.e. velferðarkerfinu. Hlutverk okkar er að standa undir þeirri þjónustu. En síðan þiggja menn þá þjónustu í mismunandi mæli. Sumir þurfa á sjúkrahúsvist að halda, aðrir þurfa á leikskólaplássum að halda o.s.frv. En um það er samfélagsleg sátt að við greiðum sameiginlega í sjóði í ljósi þess hvað við höfum í tekjur.

En með þeirri hugmynd sem hér er komið inn, sem ég lít á sem grundvallarbreytingu, er farin sú leið að greiða einstaklingum fyrir að sinna þeirri þjónustu sem velferðarkerfinu er ætlað að standa undir, þ.e. að færa verkefni frá samfélaginu, frá sveitarfélögunum, yfir til einstaklinga. Ef við ætlum að fara þessa leið, hvar endar það? Ef þessi hugsun fær aukið vægi og aukið brautargengi, verður það þannig að hver og einn geti tekið að sér tiltekið verkefni gegn greiðslu? Er það hugmyndafræðin á bak við þetta, að við getum smám saman fært þau verkefni sem samfélagið hefur sammælst um að sinna, á herðar þeirra einstaklinga sem það vilja?

Þetta er grundvallarbreyting á velferðarkerfinu og hugsuninni á bak við velferðarkerfið. Ég get því ekki annað en gert athugasemdir við þetta auk þess sem spurningar um umönnunargreiðslur hljóta að vakna í þessari umræðu: Hvaða umönnun á að greiða fyrir og hverja ekki?

Á að greiða fyrir umönnun langveikra barna? Á að greiða fyrir umönnun nákominna ættingja, í hvaða formi sem það er? Hvar byrjar þetta og hvar endar þetta? Hvernig ætlum við að hafa þetta og hvernig sjáum við velferðarkerfið þróast? Þessar grundvallarspurningar vakna með þeirri leið sem ákveðið hefur verið að fara og er mikilvægt að ræða miklu betur. Þrátt fyrir það vil ég leyfa mér að hrósa hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hann reyndi eins og kostur var að skapa umræðu um þessi mál í efnahags- og viðskiptanefnd. Það var ágætt. En hér er að minni hyggju um grundvallarbreytingu að ræða sem hefði þurft miklu betri skoðun og betri yfirlegu. Ég geri athugasemdir við þetta, m.a. á þeirri forsendu að hér er um grundvallarbreytingu að ræða sem ekki hefur verið nægjanlega rædd og röksemdirnar í nefndarálitinu standast í raun enga skoðun. Það er afar erfitt að telja rökin fullnægjandi fyrir þeim breytingum sem ætlunin er að ráðast í.

En í ljósi þess að fyrir liggur samkomulag um að ljúka þinghaldinu í dag ætla ég að ljúka máli mínu að sinni. En ég tel að þetta mál hefði þurft miklu meiri umræðu.