133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[14:51]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni lýsti ég miklum efasemdum um þessar greiðslur og skattfrelsi þeirra og ég tel að hér sé í raun og veru verið að gera breytingar á velferðarkerfinu sem eru algjörlega óræddar og allsendis óvíst hvar enda. Auk þess er reynslan af slíkum greiðslum í þá veru að menn hafa ákveðið að hverfa af þeirri braut. Ég hef sagt það hér að ég hef lýst miklum efasemdum með þessar heimgreiðslur og skattfrelsi þeirra og tel að um leið og menn byrja að hola skattkerfið á þennan hátt þurfi að ræða það í botn hversu langt á að ganga en það hefur ekki verið gert í þessari umræðu. Staðreyndin er hins vegar sú að umræðan um þetta mál ber keim af því að það er verið að slá sig til riddara rétt fyrir kosningar eins og umræða um mörg mál sem við höfum verið að fjalla um að undanförnu ber vott um.