133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[14:53]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum, frá efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndarálitið er að finna á þskj. 626.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hennýju Hinz og Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Helgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ingva Má Pálsson og Þorstein Þorgeirsson frá fjármálaráðuneyti, Andrés Magnússon frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Hólmfríði Guðmundsdóttur og Hólmfríði Þorgeirsdóttur frá Lýðheilsustöð, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Elínu Smáradóttur, Hauk Eggertsson og Þorkel Helgason frá Orkustofnun, Guðmundur Guðmundsson frá Rarik, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ernu Hauksdóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu og Davíð Þorláksson frá Viðskiptaráði.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vörugjald, lögum um virðisaukaskatt og lögum um gjald af áfengi og tóbaki.

Ég ætla nú ekki að lesa allt sem stendur í nefndarálitinu en í stuttu máli gengur það út á það að vörugjöld af matvöru eru felld niður og virðisaukaskatturinn lækkaður úr ýmist 24,5 eða 14% niður í 7%. Þetta tekur einnig til veitingahúsareksturs. Þá eru aðrar vörur sem eru með 14% virðisaukaskatt í dag lækkaðar niður í 7% og þar á meðal er rafmagn.

Það kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra við 1. umr. að mikil umræða hefði orðið um áfengi sem átti að lækka í virðisaukaskatti úr 24,5% niður í 7% en á móti ætluðu menn að hækka áfengisgjaldið sem er krónutala á hvern millilítra áfengis eða hreins áfengis og það hafði valdið mikilli hækkun á vörunni hjá Áfengis- og tóbaksversluninni en hins vegar lækkun hjá veitingahúsunum. Hann vildi að þetta yrði skoðað nánar og nefndin tók afstöðu til þess og felldi þau ákvæði úr frumvarpinu með breytingu sem er gerð á sérstöku þingskjali.

Það var mikið rætt um sykur því að hann er undanskilinn lækkun á vörugjöldum og það var líka rætt töluvert um gosdrykki, sérstaklega frá fulltrúum Lýðheilsustofnunar sem bentu á skaðsemi gosdrykkjaneyslu í óhófi, þ.e. sem leiðir til þess að glerjungur hverfur og það mætti nú gjarnan koma fram gagnvart þeim unglingum sem drekka of mikið gos og stöðugt, að það getur orðið mjög skaðlegt þannig að glerjungurinn getur horfið á mjög skömmum tíma.

Þá var rætt töluvert mikið í nefndinni um skattlagningu á raforku og það er alveg sérkapítuli, herra forseti, sem við þyrftum að skoða vegna þess að það er orðið svo flókið kerfið þar, skattlagningar og endurgreiðsla á virðisaukaskatti, að þeir fulltrúar sem komu á fund nefndarinnar sögðu að það væri ekki bara illframkvæmanlegt heldur óframkvæmanlegt en væri framkvæmt samt, að sjálfsögðu. Nefndin hvetur ráðuneytið og hagsmunaaðila til að finna einfalda lausn á því flókna kerfi og gera það einfaldara og gagnsærra.

Nefndin leggur til tvenns konar breytingar á frumvarpinu. Annars vegar eru lagðar til framangreindar breytingar þess efnis að ákvæði um að breyta lögum um áfengisgjald falli brott úr frumvarpinu og að nefndin fjalli um þær breytingar að loknu jólahléi. Hins vegar er gerð lagfæring á frumvarpinu þar sem við samningu þess láðist að setja inn ýmis tollskrárnúmer sem þó var ætlunin að frumvarpið tæki til.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Dagný Jónsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara, Birgir Ármannsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, með fyrirvara, Ásta Möller, með fyrirvara, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.

Þá ætla ég, herra forseti, að gera grein fyrir fyrirvara mínum. Hann felst í því í einföldu máli að ég tel að sykur eigi ekki að falla undir einhverja sérskattlagningu, það eigi að afnema vörugjald af sykri, að sjálfsögðu, eins og af öllum öðrum matvörum vegna þess að einfaldleikinn er líka verðmæti í sjálfu sér. Það kom fram í máli gesta hjá nefndinni að þetta frumvarp væri ein mesta einföldun í skattlagningu eða innheimtu skatta sem hefði komið lengi, það að afnema vörugjöldin af matvörum og líka það að samræma virðisaukaskattinn.

Við megum ekki gleyma því hér á hinu háa Alþingi að það er atvinnulíf sem stendur undir allri velferð í þjóðfélaginu og þetta atvinnulíf þarf að reikna út alla skatta og öll þau gjöld sem við leggjum á og sú vinna er oft ótrúlega mikil, herra forseti. Við þurfum að gæta að því að atvinnulífið fari ekki að snúast um það að innheimta skatta fyrir ríkið, við þurfum að gera kerfið einfalt. Það að halda inni sykri gerir kerfið flókið, óþarflega flókið. Ég tel, herra forseti, þó að ég skilji alveg sjónarmið þeirra sem telja að sykurneysla mætti vera minni, þá tel ég að hún sé ekki mjög teygin fyrir verði, þ.e. að verð á sykri hafi ekki mikil áhrif á neysluna. Enda hefur það sýnt sig að skattar á sykur eru með þeim hæstu á Íslandi í heiminum og neyslan hvergi eins mikil eða óvíða, og sama er með áfengi. Skattar á áfengi eru óvíða eins háir og á Íslandi og neyslan óvíða eins mikil. Ég held því að sú kenning að hægt sé að stýra neyslu einstaklinga með sköttum fái ekki staðist. Ég er hlynntur einfaldari kerfum og vil hafa þau sem allra einföldust og þess vegna er ég með fyrirvara við þetta frumvarp sem ég tel samt afskaplega gott, herra forseti, (Gripið fram í.) afskaplega gott að því leyti að það einfaldar mjög mikið framkvæmdina, er líka mjög mikil skattalækkun sem ég gleðst yfir en það er þetta litla atriði með sykurinn sem ég hef fyrirvara við.