133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var nú nokkuð skondin ræða hjá hv. formanni nefndarinnar. Það var eins og hann væri í díalóg við sjálfan sig. En það er nú alltaf ágætt ef maður getur líka brosað út í annað af þingræðum.

En ég brosi ekki yfir þeirri ákvörðun meiri hluta nefndarinnar að þverskallast við ábendingum frá Lýðheilsustöð varðandi gosdrykkina. Mig langar til að spyrja hv. þingmann einfaldlega að því, það má kannski segja að hann hafi svarað mér í síðari hluta ræðu sinnar, en mig langar til að fá að vita hvort nefndin hafi ekki farið yfir gildandi heilbrigðisáætlun.

Við erum hér með samþykkta heilbrigðisáætlun sem kerfið allt starfar eftir, samkvæmt samþykkt Alþingis til ársins 2010. Samkvæmt þeirri áætlun þá er það viðurkennt sem hluti af ábyrgð okkar, löggjafans, að stunda ákveðnar neyslustýrandi aðgerðir. Í því sambandi eru nefndar sykurvörur og gosdrykkir.

Mig langar til að spyrja hv. framsögumann nefndarinnar hvort það sé einlægur vilji hans að fara á svig við þessa heilbrigðisáætlun eða hvort við eigum að henda heilbrigðisáætluninni út í heilu lagi úr því að það er hægt að sniðganga hana með þeim hætti sem mér finnst nefndin vera að gera hér.