133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:03]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Meiri hluti á Alþingi og meiri hluti í nefnd byggist alltaf á ákveðnum málamiðlunum. Menn hafa ákveðnar skoðanir á hlutum og ég las nefndarálitið fyrst, herra forseti. Þar næst ákveðin niðurstaða.

Ég var ekki sáttur við hana að öllu leyti. Ég nefndi þau atriði sem ég var ekki sáttur við. Ég má það alveg. Mér finnst það vera hluti af lýðræðislegri hefð að ná fram niðurstöðu og geta fallist á hana og lesið hana upp. Þetta er enginn díalógur við sjálfan mig. Ég var að lesa nefndarálitið.

Svo varðandi gildandi heilbrigðisáætlun. Nefndin las hana ekki en að sjálfsögðu hefur hún hana í huga. Ég tel að það sé hægt að ná miklu meiri árangri með fræðslu og það hafa verið lagðir miklir peningar í t.d. fræðslu um heilbrigði. Ég tel að það sé betra en að stýra fullorðnu fólki með lögum.

Auðvitað eru líka börn. En ég er líka á móti því að ég sem þingmaður sé að stýra annarra manna börnum. Foreldrarnir eiga að gæta barnanna sinna sjálfir og hafa vit á því að kaupa ekki gos fyrir þau því börnin kaupa ekki gosið sjálf, a.m.k. hafa þau yfirleitt ekki fjármuni til þess.

Þessi sykurneysla er á ábyrgð fullorðins fólks, bæði hjá börnum og fullorðnum og ég neita því að við hv. þingmenn, sem sumir hverjir eru yngri en þeir kjósendur okkar sem við erum að stýra, að við séum að stýra fullorðnu fólki.

Ég vil ekki að vera að stýra fullorðnu fólki, jafnvel sem er komið yfir fimmtugt, að það eigi ekki að borða þetta eða borða hitt. Það á að hafa vit á því sjálft. Hins vegar tel ég eðlilegt og sjálfsagt að við uppfræðum fólk um hættur, t.d. unglinga um glerjungsskemmdir vegna gosdrykkjaneyslu eða offitu og því um líkt sem ég hef reyndar staðið að í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd að upplýsa menn um. En ég vil að þingið og löggjafinn beiti ráðleggingu en ekki lagaþvingun.