133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:08]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða um afar merkilegt frumvarp, að mínu mati, sem lýtur að lækkun matarverðs á Íslandi og ýmissa annarra þátta. Ég vil í upphafi míns máls enn og aftur minna á frumkvæði Samfylkingar í þessu máli og mikilvægt að halda því til haga að það er Samfylkingin sem hefur leitt umræðuna þegar kemur að lækkun matarverðs. Þar fer fremst í flokki hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sem hefur í gegnum árin ítrekað lagt fram fjölmargar fyrirspurnir og skýrslubeiðnir. Það hefur leitt af sér merkilega nefndarvinnu sem skilaði af sér skýrslu og er undirstaða þessarar umræðu og undirstaða þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin er loksins að taka sig til að framkvæma. Við skulum halda þessu til haga.

Við skulum sömuleiðis benda á það og minna á að Samfylkingin lofaði í kosningunum 2003 að lækka matarskattinn um helming og á fyrsta ári eftir þær kosningar lagði Samfylkingin fram slíkt frumvarp. Reyndar hefur Samfylkingin lagt það frumvarp fram á hverju einasta ári á þessu kjörtímabili, en hins vegar hefur Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í hvert einasta skipti fellt það frumvarp. Síðan á síðustu metrum kjörtímabilsins kemur þessi blessaða ríkisstjórn fram með frumvarp sem m.a. inniheldur þá tillögu að helminga matarskattinn.

Það er fyrst og fremst frumkvæði Samfylkingarinnar sem rak loks ríkisstjórnina til að uppfylla sín eigin kosningaloforð. Samfylkingin fór fram með mjög metnaðarfullt útspil í haust sem laut að því að lækka matvælaverðið um fjórðung eða sem nemur u.þ.b. 200 þús. kr. á hvert heimili, sem öll íslensk heimili munar um. Stuttu eftir að Samfylkingin kynnti tillögur sínar vaknaði ríkisstjórnin og kynnti sitt frumvarp. Það er svo augljóst að barátta Samfylkingarinnar hreyfði við ríkisstjórnarflokkunum því að ef við skoðum það frumvarp sem þeir lögðu fram í tiltölulega miklum flýti þá sést að ekki hefur verið nógu vel að því staðið. Frumvarpið ber öll þau einkenni að hafa verið unnið í flýti og jafnvel í örvæntingu. Ég ætla að nefna fjögur atriði því til staðfestingar.

Í fyrsta lagi er í frumvarpinu hvergi minnst á tollana. Ríkisstjórnin boðaði í haust að lækka ætti tolla. Hvergi er minnst á það og allir sem hafa kynnt sér þennan málaflokk vita að tollalækkunin er sá þáttur sem skiptir hvað mestu máli í að lækka matvælaverð á Íslandi. Hvergi er minnst á tollana í tillögum ríkisstjórnarinnar.

Í öðru lagi. Svo sérkennilega var staðið að hlutanum sem laut að áfenginu að sjálfur hæstv. fjármálaráðherra bað hv. efnahags- og viðskiptanefnd að geyma þann hluta, það þyrfti að vinna hann betur. Sá hluti var því sömuleiðis unninn í talsverðum flýti og í það miklum flýti að ekki var hægt að afgreiða hann.

Þriðja vísbendingin um örvæntingu ríkisstjórnarinnar laut að því að nánast allir hagsmunaaðilar sem komu fyrir fund efnahags- og viðskiptanefndar bentu á að í frumvarpinu skorti talsvert á útreikninga og mat á áhrif fyrir ríkissjóð annars vegar og á verðlag hins vegar. Þessir hagsmunaaðilar bentu á að tölurnar vantaði, útreikningana vantaði, sem er auðvitað mjög bagalegt þegar um er að ræða jafnviðamikið frumvarp og hér er um að ræða og stórar tölur.

Þá kemur rúsínan í pylsuendanum, ég tók eftir því í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar að búið var að bæta við nokkrum vörum sem á að fella niður vörugjöld af, þeim var bætt inn í á síðustu metrunum, en láðst hafði að setja þær vörur inn. Ég man ekki eftir að efnahags- og viðskiptanefnd hafi rætt þetta sérstaklega. Hins vegar sýnir þetta auðvitað að menn voru ekki að vinna vinnuna sína sérstaklega vel og menn voru að bæta inn ákveðnum vöruflokkum á síðustu metrunum.

Þessi fjögur atriði benda til þess að ríkisstjórnin hafi ekki verið að standa sig í stykkinu. Ríkisstjórnin hefur haft fjögur ár til að lækka matvælaverðið en hins vegar ekkert gert í því og beinlínis unnið gegn því með því að kjósa gegn tillögum Samfylkingarinnar.

Ef við förum aðeins yfir þær tölur sem liggja að baki bentu helstu hagsmunaaðilar þessa máls á útreikningana og að talsvert skorti á mat á kostnaði fyrir ríkið af þeirri breytingu og áhrifum þeirra á verðlagið. Þetta benti ASÍ á og sömuleiðis Samtök atvinnulífsins. Þá höfðu Samtök verslunar og þjónustu og Samtök atvinnulífsins einnig áhyggjur af því að búið væri að búa til ákveðnar væntingar um að matvælaverð mundi lækka um 16% 1. mars næstkomandi. Það er sú tala sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa talað um í fjölmiðlum og víðar að muni gerast. En með réttu verður auðvitað að halda því til haga að hluti af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er að innleiða og lögleiða lúta að sjálfri versluninni þannig að hægt er að taka undir áhyggjur verslunarinnar, að við munum ekki sjá 16% lækkun á matvælaverði strax 1. mars. Að sama skapi voru þetta aðilar sem gagnrýndu forsendur þeirra talna, eins og ég kom inn á áðan, en sömuleiðis var einnig bent á að birgðastaða vara mun vissulega hafa áhrif á þetta í ljósi þess að á lagerum verslana liggja fyrir vörur sem borga þarf ákveðin vörugjöld af strax 1. mars.

En ljóst er að við þurfum að tryggja að sú lækkun sem á að lögleiða skili sér til neytenda og það er lykilatriðið. Það þarf að fylgja því með talsverðum fyrirvara að okkar mati að svo gerist. Við þurfum að tryggja það sömuleiðis að verslunin freistist ekki til að hækka verðlag eitthvað áður en 1. mars rennur upp svo hægt sé að lækka það um leið og sú dagsetning rennur upp. Af því tilefni leggur stjórnarandstaðan í efnahags- og viðskiptanefnd breytingartillögu fram sem lýtur að því að tryggt verði öflugt verðlagseftirlit. Við munum kjósa um þá tillögu á eftir, en breytingartillagan er á þingskjali 629. Sjálfsagt mál er að okkar mati að við tryggjum fjármagn í slíkt eftirlit því að þetta er mikilvægt og mikilvægt að þau atriði sem hér er verið að ráðast í skili sér til þeirra sem þau eiga að fá.

Mig langar aðeins að renna yfir önnur mál sem lúta að vörugjöldunum. Ríkisstjórnin er ekki einu sinni hálfdrættingur Samfylkingarinnar þegar kemur að því að fella niður vörugjöld. Í þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar á enn að halda úti þeim flókna vörugjaldafrumskógi, þessu óhagstæða og kostnaðarsama umhverfi sem fylgir vörugjöldunum því meira en helmingur vörugjaldanna á að vera eftir. Það er að okkar mati ekki ásættanlegt. Það er langhreinlegast, best og skynsamlegast að fella niður vörugjöld með öllu. Vörugjöld eru tímaskekkja. Þetta er kostnaðarsamur skattur, falinn skattur, þetta er gjald sem hefur ákveðin uppsöfnunaráhrif og orsakar mun hærra matvælaverð en ætti að vera.

Ríkisstjórnin vill ekki fara þá leið, nema hugsanlega hv. þm. Pétur H. Blöndal og var mjög fróðlegt að heyra ræðu hans áðan þar sem hann lýsti sig algjörlega sammála tillögu Samfylkingarinnar um að fella niður vörugjöld á öllum matvælum. Ég hlakka til að fylgjast með hvernig hann mun kjósa á eftir þegar breytingartillaga Samfylkingarinnar verður lögð fram. Mér finnst afar sérkennilegt, frú forseti, þegar formaður efnahags- og viðskiptanefndar kemur í hverju málinu á fætur öðru frá þeirri nefnd og talar í raun fyrir máli sem hann er efnislega ósammála. Við sáum þetta í skattaumræðunni áðan og við sáum þetta í máli sem laut að Landskrá fasteigna og nú sjáum við það í matarskattinum. Ég hvet hv. þm. Pétur H. Blöndal og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem ég veit að er í nöp við vörugjöldin, að styðja þá tillögu Samfylkingarinnar á eftir og fella niður öll vörugjöld. Það væri kærkomin kjarabót fyrir íslensk heimili og þá mundu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sýna það í verki að þeir meini það sem þeir segja. Hér er tækifærið og í dag verður tækifærið fyrir þá hv. þingmenn að sýna að þeir meini það sem þeir segja. Ég hlakka því til að fá stuðning þessara þingmanna hér á eftir. Með því að fella niður vörugjöld er það talsverð kjarabót fyrir heimilin og þetta mun auka kaupmátt og má leiða líkur að því að ríkið muni einnig fá hluta af þeim kostnaði sem hlýst af því að fella niður vörugjöld aftur til baka.

Varðandi hugsunina á bak við vörugjöldin sem lýtur að hinum sykruðu vörum og ég vil undirstrika það að mörkin milli sykraðra vara og ekki eru afskaplega óljós og stundum eru þau hreint út sagt heimskuleg. Í nefndinni var bent á að sykurlaust ópal og sykurlaust tyggjó bera þennan svokallaða sykurskatt. Bent var á að sódavatn með bragðefnum ber sykurskattinn. Mörkin þarna á milli eru því óljós og handahófskennd og þetta eru enn ein rökin fyrir því að fella niður vörugjöldin. En þeir sem vilja halda í vörugjöldin á hinum meintu sykruðu vörum aðhyllast ákveðna neyslustýringu eða eru með þá von að það hafi einhver neyslustýrandi áhrif á landann, en um það má einnig efast alveg burt séð frá því hvort fólk trúi því að löggjafinn eigi að viðhalda einhvers konar neyslustýringu í lagasetningu sinni, þá má alveg benda á þá staðreynd að Íslendingar eru sú þjóð sem drekkur einna hvað mest af gosdrykkjum þrátt fyrir að gosdrykkir á Íslandi beri hvað hæstar álögur. Í þessu virðist því vera takmarkað samhengi á milli verðs og neyslu. Gosið á Íslandi er dýrt en þrátt fyrir það er neyslan mikil. Ég leyfi mér að efast um hversu sterk slík tengsl eru og ég veit að það eru eflaust einhverjir sem eru ósammála því. En mér sýnist sú aðferðafræði sem birtist í vörugjöldunum ekki virka.

Einnig má benda á að um leið og við lækkum vörugjöld á gosi mun það lækka verðið á öðrum drykkjarvörum, svo sem ávaxtasöfum og sódavatni vegna þess að lækkun á einni staðkvæmri vöru hefur áhrif á verð annarrar staðkvæmrar vöru. Með því að lækka vörugjöld á t.d. gosdrykkjum mun verðið lækka á öðrum drykkjarvörum. Ég held að leiðin að því að draga úr gosneyslu landans, sem ég get alveg tekið undir að þurfi að gera, sé fyrst og fremst í gegnum forvarnir. Hér er búið að nefna og var nefnt af einum gesti nefndarinnar frábært forvarnaverkefni sem snertir Latabæ, sem er að fá alþjóðlega viðurkenningu nánast í hverri viku. Þetta eru frekar leiðirnar sem við eigum að einbeita okkur að, því að hin leiðin er að mínu mati orðin gjaldþrota, reynslan sýnir það. Við leggjum því fram þá breytingartillögu um að fella niður öll vörugjöld á matvælum og færum Íslendingum þá kjarabót sem þeir eiga skilið.

Varðandi virðisaukaskattinn er ríkisstjórnin að leggja til nákvæmlega sömu breytingu og Samfylkingin er búin að leggja til allt þetta kjörtímabil, þ.e. að helminga matarskattinn, og það er sérstaklega ánægjulegt. Að sjálfsögðu mun Samfylkingin styðja tillögur ríkisstjórnarinnar þótt sú tillaga komi ekki frá okkur, ólíkt sjálfstæðisþingmönnum og framsóknarþingmönnum sem felldu tillögu okkar þrátt fyrir að hafa sjálfir lofað sömu tillögu í kosningunum síðast. Þetta er því ánægjuleg tillaga sem sömuleiðis mun bæta kjör almennings. Vert er að minnast þess og ánægjulegt að ríkisstjórnin hefur bætt við í lækkunarhrinu sinni varðandi virðisaukaskattinn og bætt við tónlistinni. Ekki má gleyma henni þegar kemur að skattalækkunum og þess vegna er það ánægjulegt. Þetta er gamalt kosningaloforð Samfylkingarinnar og eflaust fleiri flokka um að lækka vaskinn á tónlistinni.

Einnig er fagnaðarefni — auðvitað þarf maður að vera jákvæður gagnvart því sem vel er gert — að virðisaukaskatturinn af veitingaþjónustu er lækkaður. Þetta mun einfalda heilmikið það umhverfi. Nú mun það ekki skipta máli hvort maturinn er afhentur í gegnum lúgu eða í sal o.s.frv. Einfaldleikinn er dyggð í sjálfu sér, því fögnum við þessu og sömuleiðis mun þetta skila kjarabótum.

En Samfylkingin vill ganga lengra í sambandi við virðisaukaskattinn því að við höfum áttað okkur á að með því að lækka virðisaukaskattinn á bókum, matvælum, tímaritum og geisladiskum niður í 7% stendur ein mikil og veigamikil vara í samfélagi okkar eftir, sem eru lyfin. Eftir þessa lækkun munu lyf á Íslandi enn þá bera 24,5% virðisaukaskatt og það finnst okkur ekki vera rétt. Því höfum við lagt fram breytingartillögu um að virðisaukaskattur á lyf muni einnig lækka niður í 7%. Slík aðgerð mun kosta samkvæmt svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóns Kr. Óskarssonar, varaþingmanns Samfylkingarinnar, um 670 millj. kr. Við teljum að ríkissjóður sé vel fær um að láta þessa ákvörðun, þá aðgerð fylgja með í frumvarpinu og viljum því bjóða þingheimi öllum að fylkja sér á bak við tillögu Samfylkingarinnar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar um að lyfin verði einnig skattlögð í 7% þrepinu. Við vitum að lyf á Íslandi eru dýr, of dýr. Við vitum líka og það er fullyrt í okkar eyru að ríkið greiði um það bil 90% af öllum lyfjunum. Ríkið sjálft er því að greiða stóran hluta af vaskinum og þetta er ekki það dýr aðgerð í ljósi hagsmuna fyrir ríkið að við ættum auðvitað að fara þá leið. Við munum kjósa um þetta á eftir.

Tollarnir, eins og ég kom inn á áðan, ef ég tek þetta svona í flokkum, þá minnist ríkisstjórnin hvergi á tollalækkanir, sem hún þó boðaði í haust. Samfylkingin lagði fram sínar metnaðarfullu tillögur um að fella niður tolla í áföngum, fella strax niður helminginn 1. júlí en síðan mundum við fella niður tollana í framhaldinu í samráði við hagsmunasamtök bænda og neytendur. Langbesta kjarabótin eru tollamálin, það má ekki gleyma því. Ríkisstjórnin kom með afskaplega máttlausa tillögu, talaði um 40% lækkun á innfluttum kjötvörum, en eins og bent var á í efnahags- og viðskiptanefnd skilur 40% lækkun á ofurtollum eftir sig ofurtolla og aðilar markaðarins efa stórlega að slík lækkun muni skila sér til neytenda í þeim mæli sem hún ætti að gera.

Sömuleiðis lýtur tollalækkun ríkisstjórnarinnar, að minnsta kosti eins og plön ríkisstjórnar voru í haust, að því að lækka tolla einungis á innfluttum kjötvörum, þannig að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skilja eftir mjög mörg matvæli enn þá með tolla og má þar nefna mjólkurafurðir, smjör og pylsur, kaffi og krydd, kæfur, drykkjarvörur, sósur, súpur, ís, sælgæti, túnfisk, sardínur, hrogn, feiti, olíur o.s.frv. En ég ítreka að með því að fella á niður tollana í áföngum þarf að hafa ríkt samráð við hagsmunasamtök bænda. Samfylkingin ætlar ekki að koma aftan að bændum. Við ætlum að gera þetta í samráði við þá, við ætlum að tryggja sérstakan tímabundinn aðlögunarsamning til 1. júlí þegar fyrsti áfanginn tekur gildi og framhaldið verður sömuleiðis gert í samráði við þá. Það er kerfið sem slíkt sem við setjum spurningarmerki við. Við teljum að íslenskir bændur gætu haft það betra og þegar Bændasamtökin komu á fund Samfylkingarinnar um daginn bentu þeir sjálfir á að bóndinn er kannski að fá 40% af útsöluverði vöru sinnar og það er auðvitað besti vitnisburðurinn um að kerfið sé ekki að skila því sem það ætti að skila, því að núverandi landbúnaðarkerfi er eitt það dýrasta í heimi fyrir skattgreiðendur. Við erum að greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi og kjör bænda eru verri en þau gætu verið. Það er því eitthvað að kerfinu. Við þurfum að auka hlutdeild bóndans í útsöluverði sinnar eigin vöru. Við viljum sjá nýrra og betra kerfi gert í samráði við bændur.

Því til upprifjunar ætla ég að rifja upp þegar ríkisstjórnin felldi niður tolla af tilteknum grænmetistegundum, gúrkum, tómötum og papriku. Þá töldu úrtölumenn að þetta yrði afskaplega slæm ákvörðun. Hver var niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú að ekki nóg með að verðið á þeim vörum lækkaði heldur jókst líka salan. Salan á íslensku grænmeti jókst. Síðan hafði þessi tollalækkun sömuleiðis áhrif á aðrar grænmetistegundir sem þó voru ekki fyrir sömu ákvörðun ríkisstjórnarinnar og þær fyrrgreindu grænmetistegundir. Þetta dæmi er mjög skýrt um að niðurfelling tolla í samráði við bændur, því að þarna var gerður sérstakur samningur við bændur um annars konar stuðning, borgar sig fyrir bændur og borgar sig sérstaklega fyrir neytendur og við erum svo sem öll neytendur eins og gefur að skilja. Þetta er skólabókardæmi um að við höfum rétt fyrir okkur í þessu máli.

Ég ætla aðeins að koma að áfengismálinu. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd varð við óskum hæstv. fjármálaráðherra um að láta það mál vera og það kemur væntanlega til skoðunar hvernig að því verður staðið, hvort áfengi mun áfram verða í 24,5% skattþrepi eða ekki. Hins vegar langar mig að velta því upp að núverandi áfengisgjald færir ríkissjóði um 7 milljarða. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar til að jafna lækkun á vaskinum hefði fært um 4 milljarða til viðbótar í ríkissjóð. Þá værum við komin með áfengisgjald sem væri að gefa ríkissjóði 11 milljarða kr., sem er svipuð upphæð og kostar að reka alla framhaldsskóla landsins. Ég held að við ættum alveg að taka þá umræðu einhvern tíma hversu dýrt áfengi ætti að vera og ég ætla svo sem ekkert að fara endilega í það, en við þurfum að taka þá umræðu á hvaða vegferð við erum varðandi verðlagningu á áfengi. Þetta snertir sömuleiðis hugmyndirnar um neyslustýringu o.s.frv. En mér finnst óskiljanlegt að Íslendingar þurfi að vera sú þjóð sem þurfi að sætta sig við eitt hæsta áfengisverð í heimi, eitt hæsta matvælaverð í heimi, eitt hæsta lyfjaverð í heimi, eitt hæsta bensínverð í heimi, eina hæstu vexti í heimi, vextir eru ekkert annað en verð á peningum. Ég átta mig ekki á því að við sem þingmenn sættum okkur við að bjóða almenningi upp á að hafa allt svo dýrt á Íslandi. Við höfum valið til að breyta og bæta kjörin til batnaðar.

Að lokum mun stjórnarandstaðan flytja breytingartillögu, sem Ögmundur Jónasson er fyrsti flutningsmaður að, sem lýtur að því að endurgreiðslur á virðisaukaskatti nái einnig til almenningsvagna. Hv. þm. Ögmundur Jónasson mun án efa gera betri grein fyrir þeirri tillögu.

Að síðustu langar mig að taka undir áhyggjur sveitarfélaganna því að í umsögn þeirra til efnahags- og viðskiptanefndar gagnrýna þau að frumvarpinu fylgi ekki kostnaðarmat með tilliti til heildaráhrifa á fjárhag sveitarfélaga, eins og ber að gera. Hér vísa sveitarfélögin í samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá árinu 2005. Þetta er annað frumvarpið í röð sem við fengum í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga kvartar yfir því að ríkið uppfylli ekki þetta samkomulag að þeirra mati. Sé samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um að kostnaðarmat þurfi að liggja fyrir á auðvitað að uppfylla það og það má ekki verða regla hjá fjármálaráðuneytinu að uppfylla ekki þennan þátt samkomulagsins, því eins og allir vita eru margar ákvarðanir teknar í þessum sal sem hafa bein áhrif á hag sveitarfélaganna.

Það er margt jákvætt í þessu máli. Samfylkingin vill ganga lengra. Við viljum lækka matvælaverð helmingi meira en ríkisstjórnin og við höfum lagt fram metnaðarfullar tillögur í þá átt og ég hlakka til að sjá viðbrögð ýmissa stjórnarþingmanna við þeim tillögum sem koma til afgreiðslu á eftir.