133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda á annað atriði sem einkennir dálítið ræður hv. þingmanns. En það eru áhrif skattalækkana á verðþróun á næsta ári. Við erum með 7% verðbólgu í dag. Það er meginverkefni stjórnvalda að ná verðbólgunni niður. Ég hef því alltaf haft efasemdir um að rétt sé að fara út í að lækka virðisaukaskattinn núna. 8–12 milljarða kr. skattalækkun mun ýta undir áframhaldandi verðbólgu.

Við erum með skuldugustu heimili í heimi, skulum við segja. Skuldir heimilanna eru um 1.200 milljarðar kr. Hvert prósentustig sem verðbólgan fer upp en ekki niður kostar heimilin um 10–12 milljarða kr. í auknum skuldum og 1–2 milljarða kr. á ári í útgjöldum vegna vaxta.

Hv. þingmaður ætlar að bjóða betur. Hann býður helmingi meiri skattalækkun. Þá segi ég, virðulegi forseti: Það mun leiða til meiri verðbólgu eða að verðbólgan minnkar hægar en ella væri. Með því móti er, þrátt fyrir að meiningin sé að bæta kjör almennings með lækkun skatta, verið að hækka skuldir heimilanna og hækka greiðslubyrði þeirra af þeim skuldum.

Við megum ekki tapa okkur í yfirboðum í skattalækkunum. Við verðum að stjórna efnahagsmálum með þeim hætti að verðbólgan sé lág. Það er besta kjarabótin og mesta skattalækkunin sem við getum boðið fólki.