133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[15:53]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því frumvarpi sem hér er komið til 2. umr. og fjallar um lækkun virðisaukaskatts og afnám vörugjalds á matvörum. Hér koma fram langþráðar breytingar sem eru til þess fallnar að lækka verð á matvælum hér á landi umtalsvert. Þetta er í samræmi við loforð Sjálfstæðisflokksins við kosningarnar 2003 og kom jafnframt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 2003. Jafnframt má benda á það, og ég tek undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að þetta hefur verið baráttumál Sjálfstæðisflokksins lengi þannig að mér finnst svona hártoganir um það hver eigi málið, eins og Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á í þessum málflutningi, eiginlega alveg út í hött. Þetta hlýtur að vera baráttumál okkar allra og það að merkja það einum flokki öðrum fremur finnst mér ekki vera viðeigandi. Það skiptir öllu máli hver framkvæmdin sé og framkvæmdin er sem sagt í dag í þá veru að það er verið að lækka matvælaverð.

Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins munu þessar breytingar einar og sér leiða til 12,3% lækkunar matvöruverðs í landinu, þar af er 40% lækkun tolla á matvöruverð metin 1,5%. Ég tel að nú séu kjöraðstæður til þess að lækka matvöruverð. Verðbólga er á hraðri niðurleið og spár eru um að gengið muni halda sér í tiltölulegu jafnvægi á næsta ári. En það skiptir miklu máli að hagsmunaaðilar veiti versluninni aðhald og hafi eftirlit með að lækkunin skili sér í matvöruverði til neytenda.

Jafnframt eru gerðar ýmsar aðrar breytingar í frumvarpinu varðandi húshitun og veitinga- og gistihús, varðandi bækur, blöð, tímarit og geisladiska sem allar eru til þess fallnar að lækka kostnað heimilanna. Heildaráhrifin af þessum skattalagabreytingum eru metin um 10,5 milljarðar kr. á ári, en á næsta ári, þar sem breytingin tekur gildi 1. mars, er það metið 9 milljarðar kr.

Ég hef einn fyrirvara við þetta frumvarp sem ég vil hér gera grein fyrir og hann varðar það að vörugjald á gosdrykkjum er aflagt. Í frumvarpinu er sem sagt lagt til að samhliða lækkun virðisaukaskatts á matvöru í eitt virðisaukastig, 7%, eru vörugjöld felld niður af innlendum og innfluttum matvælum öðrum en sykri og sætindum. Fyrirvari minn varðar það að ég tel að gos og sykraðir drykkir eigi áfram að bera vörugjald á sama máta og sykur og sælgæti og þannig flokka ég gos og sykraða drykki með sykri og sætindum. Rökin eru manneldislegs eðlis. Ég tek þar undir rök Lýðheilsustöðvar. Ég tel að stjórnvöld eigi ekki að stuðla að lækkun verðs á þeim vörum sem gætu leitt til aukinnar neyslu sykurs, sætinda og gosdrykkja. Það verður til þess að auka á vanda sérstaklega barna og ungmenna varðandi ofþyngd og versnandi tannheilsu, en það hefur verið metið að um 6% heilbrigðisútgjalda megi rekja til ofþyngdar eða offitu. Leiðir eins og þessi, þ.e. að halda verði á sykurvörum háu, er því til þess fallið að minnka neyslu á sykri.

Það kom fram í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar að hann furðaði sig á því að þegar horft er til verðlagningar á gosi þá er hún hærri hér á landi en í nágrannalöndum okkar og hann skildi því ekki af hverju það leiddi ekki til þess að neyslan væri þá minni hér. Matvöruverð hér og í Noregi til dæmis er almennt hærra en í öðrum löndum og það sem skiptir máli í þessu er hlutfallið á milli verðs á gosi og verðs á hollustuvöru. Verðið á gosi hér er tiltölulega lægra en á hollustudrykkjum. Það er það sem skiptir máli, þ.e. verðmunur þessara drykkja frekar en hlutfallslegt verð á milli landa. Það svarar því vangaveltum hans þar um.

Ég hef hins vegar væntingar um að spurningin um vörugjöld eða ekki vörugjöld á gosi verði tekið til skoðunar í jólahléi þingsins. Ég vona að af þeirri skoðun verði. Jafnframt hef ég væntingar um að athugað verði að skipta upp vöruflokknum gos og sykraðir því að í sama vöruflokki eru kolsýrudrykkir sem eru ekki sætir en eru með bragðefnum án þess að vera sætir þannig að þeir mundu teljast til hollustudrykkja. Ég tel að það eigi að greina annars vegar milli hollustudrykkja og hins vegar sykraðra drykkja og þeirra sem geta haft áhrif á glerung tanna. En það er alveg ljóst að tannheilsu ungmenna og barna hefur farið hrakandi á síðustu árum.

Að lokum vil ég ræða það sem varðar lyfin. Hér hefur komið fram breytingartillaga um að lækka virðisaukaskatt á lyfjum og í prinsippinu er ég sammála því. Á hinn bóginn hefur þetta lítið verið rætt innan nefndarinnar og þingsins og það er álitamál í þessum efnum hvort öll lyf eigi að vera undanþegin virðisaukaskatti eða eingöngu lyfseðilsskyld lyf. Mér sýnist á tillögu stjórnarandstöðunnar og hv. þingmanna Samfylkingarinnar að öll lyf séu þar undir. Ég er ekki tilbúin til þess að fara þá leið. Ég tel að ef við förum í þá leið sem ég tel að sé æskileg, að fella niður virðisaukaskatt á lyfjum, þá eigum við að horfa til Norðurlandanna og nágrannalanda okkar sem hafa fellt niður virðisaukaskatt á lyfseðilsskyldum lyfjum en ekki á öllum lyfjum. Út frá þeirri forsendu og því að ekki er gert ráð fyrir þessu í fjárlögum sem hafa þegar verið samþykkt og vegna þess að við höfum staðið að miklum skattalækkunum nú sem verið er að samþykkja þessa dagana þá get ég ekki stutt þessa breytingartillögu sem liggur fyrir. Það er þó aðallega vegna þess að ég tel að það eigi að skoða það að aðskilja lyfseðilsskyld lyf og önnur lyf.