133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:07]
Hlusta

Katrín Fjeldsted (S):

Frú forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að fagna framkomu þessa frumvarps. Umræður um lækkun á matarskatti hafa átt sér stað mjög lengi og ég man að á þeim tíma þegar ég bjó í Bretlandi og frú Thatcher tók þar við völdum tókst henni, þrátt fyrir mótmæli allra færustu hagfræðinga Breta, að standa gegn því að virðisaukaskattur væri settur á matvæli, bækur og barnaföt. Þetta horfðu menn á í nágrannalöndunum. Umræða hefur að sjálfsögðu verið um þetta innan míns flokks, Sjálfstæðisflokks, og ég fagna því sérstaklega að þetta skref sé tekið hér með þessu frumvarpi.

Of stór hluti launa fólks hefur farið í matarkostnað. Það er allt í lagi fyrir okkur sem eldri erum að segja unga fólkinu að elda heima, hætta að borða skyndibita og drekka vatn í staðinn fyrir að drekka gos en lífið er ekki svona einfalt. Latibær og Magnús Scheving gera ábyggilega meira gagn en foreldrar í þessu tilliti.

Mér hefur lengi verið þyrnir í augum sú neyslustýring sem lágt verð á hvítum sykri hefur valdið því að það hefur verið neyslustýring. Ég ætla að skýra mál mitt með því að sykurrík matvæli og sælgæti hafa verið hlutfallslega ódýrari hér á landi en margar hollari vörur. Þetta vitum við. Svangir krakkar og unglingar sem vilja grípa eitthvað til að seðja sultinn grípa auðvitað eitthvað sem fullnægir þörfinni fljótt. Sykurinn frásogast mjög hratt frá slímhúð magans og vellíðun fylgir í kjölfarið. Í kjölfarið fylgir einnig fleira, svo sem offita og það er vandamál sem við, vestrænar þjóðir sérstaklega, stöndum frammi fyrir, offituvandamálum meðal barna og unglinga ekki síður en fullorðinna. Það er sykur og hreyfingarleysi sem sennilega vega þyngst hvað þetta varðar og eru helsta orsökin.

Hér á landi eru það ekki síst Læknafélag Íslands og svo Lýðheilsustöð að öðrum ólöstuðum sem hafa komið þessum sjónarmiðum á framfæri, tannlæknar og matvælafræðingar að sjálfsögðu sömuleiðis. Með þeirri verðlækkun sem nú er fyrirhuguð á matvælum, og er mér mjög kærkomin eins og ég sagði í upphafi, held ég að hafi verið ófyrirséð að vissar tegundir drykkja eins og gosdrykkja yrðu undanþegnar. Ég er ekkert viss um að menn hafi endilega áttað sig á því og ég held að það sé eitthvað sem verður þá tekið á og menn skoði sérstaklega. Lækkun á matvælaverðinu var að sjálfsögðu ekki hugsuð til að auka neyslu á óhollustu, en sú gæti orðið raunin. Þess vegna þarf í upphafi endinn að skoða og það þarf að finna leiðir til að hvetja fólk og gera eftirsóknarvert fyrir það að neyta hollrar fæðu. Þar er verð á ávöxtum og grænmeti, eins og minnst var á áðan, sem þarf að vera viðráðanlegt til að vega á móti sykursukkinu, því að í sykursukki erum við, Íslendingar.

Mig langar einnig að nefna úr þessu frumvarpi lækkun bókaverðs sem mun fylgja því að virðisaukaskattur á bókum fari niður og sömuleiðis mun tónlistin, sem talar reyndar sínu máli, njóta þess. Við Íslendingar erum bókaþjóð, a.m.k. miðað við marga aðra, en bóklestur hefur dregist saman og ég tel að það sé mikið gleðiefni að virðisaukaskattur á bókum lækki. Einhver sagði að dagur án brauðs gæti e.t.v. orðið, en aldrei dagur án þess að lesa. Þetta er vatn á þá myllu að snúa því við.

Í lokin langar mig bara að minna þingmenn og alþjóð á það að það er enginn virðisaukaskattur á drykkjarvatni og hvetja til þess, og fá Magnús Scheving með í þá hvatningu, að drekka drykkjarvatnið sem kostar ekki neitt og er dásamleg auðlind okkar Íslendinga og langhollasti drykkurinn. Svo óska ég okkur til hamingju með þetta frumvarp.