133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

408. mál
[17:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í nefndaráliti því sem við höfum á þingskjali 640 sat ég fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð en stend ekki að áliti þessu, enda kem ég ekki til með að styðja málið í atkvæðagreiðslu á eftir. Fyrir því eru nokkur rök.

Í fyrsta lagi er auðvitað dapurlegt til þess að vita að enn skuli vera innan þessa svæðis skilgreint svokallað öryggissvæði. Ég vil meina að samkomulagið sem gert var í Washington í október síðastliðnum sé að mörgu leyti meingallað, m.a. að við skulum þurfa að beygja okkur undir það að enn skuli vera til skilgreint öryggissvæði þar sem Bandaríkin muni halda árlega tvíhliða og/eða fjölþjóðlegar heræfingar á íslensku landsvæði og í íslenskri lofthelgi og landhelgi að fengnu samþykki íslenskra stjórnvalda. Sömuleiðis er samkvæmt samkomulaginu gert ráð fyrir æfingum Íslendinga á þessu svæði, herafla annarra bandalagsríkja og eftir atvikum liðsafla annarra ríkja utan NATO, t.d. þátttökuríkja í samstarfi í þágu friðar, PFP. Öryggissvæðið, sem er ansi stórt og er greint með markvissum hætti á því korti sem fylgir frumvarpinu, er því enn til staðar með sömu takmörkunum og öryggissvæðið hefur verið hingað til þó að það sé nú minna.

Mér finnst að samkomulagið og þau atriði í samkomulaginu torveldi að hægt sé að gera viðskilnað hins erlenda herliðs með þeim hætti að hann sé hreinn og klár. Ég gagnrýni að ekkert skuli vera í frumvarpinu um það á hvern hátt gert sé ráð fyrir að svæðið verði hreinsað í umhverfislegu tilliti. Ég tel vanta tilfinnanlega upp á ákveðna þætti í frumvarpinu.

Einnig vil ég nefna að með því er gert ráð fyrir að við gerumst sjálfstæðir þátttakendur í fyllingu tímans í Mannvirkjasjóði NATO. Það kemur til með að verða gríðarlega kostnaðarsamt fyrir okkur og ég tel að nánari upplýsingar hefðu mátt koma fram um þau áform í greinargerð með frumvarpinu, en það eina sem þar stendur er að það hafi í samkomulaginu frá 11. október 2006 verið gengið út frá því að íslensk og bandarísk stjórnvöld mundu í sameiningu mæla með því við Atlantshafsbandalagið að Íslendingar tækju hið fyrsta við hlutverki gistiríkis af Bandaríkjunum varðandi mannvirki fjármögnuð af bandalaginu á Íslandi. Um þetta hljóta að liggja fyrir einhverjar frekari áætlanir sem betra væri að væru hér til staðar.

Eins og ég segi, við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum þessa fyrirvara við málið og komum ekki til með að geta stutt það í atkvæðagreiðslu.