133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

tryggingagjald.

420. mál
[17:43]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, sem er að finna á þingskjali 649, frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Ingva Má Pálsson og Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti, Arnar Sigurmundsson og Árna Guðmundsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Sigurbjörn Sigurbjörnsson frá Söfnunarsjóði lífeyrissjóða og Vigfús Ásgeirsson frá Talnakönnun.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um tryggingagjald. Annars vegar er lagt til að það sé lækkað um 0,25% og hins vegar hefur ríkisstjórnin lýst því yfir — ég hleyp yfir þetta, þetta stendur í nefndarálitinu — að hún sé reiðubúin til að greiða fyrir jöfnun á örorkubyrðum milli lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins með framlagi sem svarar til 0,25% af tryggingagjaldsstofni samkvæmt nánari útfærslu.

Ég mun ekki að lesa nefndarálitið nánar, frú forseti, en vil benda á að frumvarpið fékk mjög skamman tíma til vinnslu í nefndinni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Ásta Möller, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson.