133. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:47]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það getur stundum verið afskaplega sérkennilegt að hlusta á málflutning sjálfstæðismanna í þessari umræðu. Samfylkingin lofaði því í kosningabaráttunni 2003 að helminga matarskattinn. Eftir þær kosningar hefur Samfylkingin lagt fram frumvarp um þetta mál á hverju einasta ári. Í hvert einasta skipti hafa þingmenn sjálfstæðismanna, sem voru með sama kosningaloforð, fellt það mál. Þeir hafa ýtt á nei-takkann í hvert einasta skipti og þannig unnið gegn því að ná að lækka matvælaverð hér á landi.

Síðan gerist það að tveimur mánuðum fyrir kosningar vaknar Sjálfstæðisflokkurinn. Tveimur mánuðum fyrir kosningar eiga aðgerðir ríkisstjórnarinnar að taka gildi, tveimur mánuðum fyrir kosningar á að lækka matvælaverðið. Þetta er svolítið billegt, frú forseti.

Síðan er líka fróðlegt að sjá afstöðu þingmanna sjálfstæðismanna sem hafa sagt það í ræðu og riti og nú síðast hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar að hann vilji fá vörugjöldin í burtu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins fengu tækifæri til að afnema vörugjöldin af matvælum áðan. Þeir greiddu allir atkvæði gegn því þrátt fyrir að þeir hafi ítrekað sagt í sínum kreðsum, í fjölmiðlunum og í þessum sal að þeir vilji afnema vörugjöldin. Það er ekki mikið að marka málflutning sjálfstæðismanna þegar kemur að þessum málum. Sömuleiðis eru engar áætlanir í þessu frumvarpi sem lúta að tollabreytingum. Þeir skila auðu hvað það varðar.

En að lokum, frú forseti, er vert að rifja upp að Ísland er það land sem hefur aukið skattbyrði á einstaklinga mest af öllum OECD-þjóðum og það gerðist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er hins vegar einn hópur sem hefur fengið lægri skattbyrði í ríkisstjórnartíð þessara flokka, það eru þeir einstaklingar sem hafa hæstu tekjurnar, topp-10 prósentin, þar hefur skattbyrðin lækkað. Almenningur í landinu á ekkert skjól hjá þessari ríkisstjórn og verk ríkisstjórnarflokkanna sýna það í dag og á öllu kjörtímabilinu, því miður. Samfylkingin hefur lagt fram metnaðarfullar tillögur í skattamálum og tillögur til að lækka matarverðið. Hins vegar þegar kemur að því að greiða atkvæði sýna Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sitt rétta andlit sérhagsmuna, frú forseti.